144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

samgöngumál á Vestfjörðum.

[15:43]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að hafa fengið á dagskrá þessa sérstöku umræðu um samgöngur á Vestfjörðum. Tilefnið að þessu sinni er sá harði og illleysanlegi hnútur sem samgöngumál Vestfirðinga hafa komist í og reyndar verið í mörg undanfarin ár, ekki síst vegna lagadeilna um veg gegnum eða jafnvel utan um Teigsskóg í Þorskafirði.

Sú raunasaga nær um það bil áratug aftur í tímann þegar landeigendur í Þorskafirði risu gegn áformum um vegagerð um Teigsskóg. Þáverandi umhverfisráðherra samþykkti um síðir að vegur skyldi lagður með ákveðnum skilyrðum en sá úrskurður var ógiltur í héraðsdómi og síðar í Hæstarétti.

Ekki lauk málinu þar með og nú fyrir fáum dögum felldi Skipulagsstofnun úrskurð þar sem enn eina ferðina er hafnað vegalagningu um Teigsskóg og hringavitleysan um vegagerð í Gufudalssveit heldur áfram.

Eins og ég sagði í þinginu um daginn hef ég alltaf verið fylgjandi vegi um Teigsskóg, en ég geri mér líka grein fyrir því að sú leið er sú torveldasta gagnvart lögum eins og málum er háttað. Og á meðan málið er fast í lagaflækjum og þrætum streymir fjármagnið, sem annars hefði farið í að leysa samgönguvanda Vestfirðinga á sunnanverðum Vestfjörðum, í minna aðkallandi verkefni í öðrum landshlutum.

Íbúar á svæðinu hafa frá upphafi gert þá einu kröfu að gerður verði öruggur láglendisvegur um Gufudalssveit þannig að fólk geti allt árið komist leiðar sinnar til að sækja sér ýmsa þjónustu, sérstaklega yfir vetrarmánuðina þegar samgöngur eru með öllu tepptar við norðanverða Vestfirði. Og ég meina auðvitað á meðan beðið er eftir Dýrafjarðargöngum, við skulum gera ráð fyrir því að þau verði einhvern tímann að veruleika, og meðan beðið er eftir heilsársvegi um Dynjandisheiði sem er forsenda þess að hægt sé að sameina stofnanir, þjónustu og sveitarfélög á Vestfjörðum.

Öruggur láglendisvegur hefur verið krafa íbúanna og nú vill svo til að á teikniborði Vegagerðarinnar hafa lengi verið aðrar raunhæfar löglegar leiðir sem uppfylla einmitt kröfuna um að vera öruggur láglendisvegur. Það eru til dæmis leið A1 og leið I sem báðar gera ráð fyrir þverun Þorskafjarðar og góðum láglendisvegi inn eða út fjörðinn. Fullásættanlegar leiðir og að ýmsu leyti jafnvel betri.

Þess vegna koma þessar langvinnu þrætur um Teigsskóg spánskt fyrir sjónir og ekki síst sú umræða sem er uppi núna að hægt sé að setja sérstök lög um þessa tilteknu leið og þröngva þar með vilja ráðamanna fram til þess að koma vegi í gegnum skóginn.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver er afstaða hennar til þeirra hugmynda, sérstakrar löggjafar um þessa tilteknu leið? Áttar ráðherrann sig á því að lagasetningu má líka kæra? Það er hætt við því kannski að málaferli haldi þá áfram, verði af því.

Skipulagsstofnun hefur leiðbeint Vegagerðinni í úrskurði sínum um hvað sé farsælast að gera ef menn vilja veg um Teigsskóg og hvernig væri hægt að leysa þetta mál, þ.e. með ósk um endurupptöku umhverfismats. Það er tafsöm leið en hún er samt fær þótt hún taki nokkur ár að öllum líkindum því að það þurfa að líða tíu ár frá upphaflegu umhverfismati.

Átakaleiðin hefur verið reynd nógu lengi, finnst mér, og ég er ansi hrædd um að hún sé ófær. Þess vegna er svo raunalegt að hugsa til þess að á meðan málinu er haldið í þessu átakaferli og þessum óleysanlega hnút bíða Vestfirðingar eftir því að fá að halda áfram búsetuþróun sinni, atvinnuuppbyggingu sinni, þeir fá ekki að sitja við sama borð og aðrir landshlutar vegna þess að samgöngumálin eru í ólestri. Það er óásættanleg staða fyrir landshluta sem þrátt fyrir allt er í uppbyggingu vegna aukinnar ferðaþjónustu, fiskeldis o.fl. og þarf að fá að halda þeirri uppbyggingu áfram.

Því spyr ég ráðherra: Mun þessi ríkisstjórn standa við marggefin fyrirheit margra ríkisstjórna til íbúa á Vestfjörðum um að (Forseti hringir.) leyst verði úr þessum samgönguvanda, annars vegar í Gufudalssveit og hins vegar með Dýrafjarðargöngum og uppbyggingu vegar um Dynjandisheiði?