144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

samgöngumál á Vestfjörðum.

[15:56]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Enn á ný ræðum við slæmar samgöngur á Vestfjörðum. Það er einstaklega sorglegt að það skuli þurfa að ræða það ár eftir ár vegna þess að fyrir margt löngu myndaðist samhljómur um að það væri mjög brýnt að fara í úrbætur eins og á Vestfjarðavegi. Það hefur hins vegar ekki gengið. Dýrafjarðargöngum hefur sífellt verið frestað en þau voru í fjárfestingaráætlun sem samþykkt var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þar var tryggt fjármagn og það átti að fara í þetta verkefni. Þess vegna er ömurlegt að sjá að ekki sé byrjað á því. Þetta er alltaf einhvern veginn svona. Svo ræðum við líka veginn norður í Árneshrepp reglulega.

Auðvitað þarf að fara að gera eitthvað í þessu en ég get ekki staðið hér og sagst vera með einu lausnina á þeirri flækju sem hefur myndast og verður sífellt flóknari á löngum tíma varðandi Vestfjarðaveg. Ég get þó sagt að miðað við það hvernig útfærslan á veginum hefur þróast frá upphaflegu hugmyndinni, í gegnum Teigsskóg, þá finnst mér álitlegra að fara í lagasetningu en áður. Vegurinn hefur það lítil áhrif á skóginn miðað við upphaflegu útfærsluna. Ég gat ekki mælt með lagasetningu áður, en mér finnst ég geta gert það núna, sem einni mögulegri leið sem þó er ekki fullkomin. Eins og kom fram í máli hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur þá er hægt að kæra lagasetningu. Það er því ekki víst að flækjan leysist.

Nú finnst mér við einfaldlega vera komin á þann tímapunkt að við þurfum að skoða allar leiðir með opnum huga, þar á meðal lagasetningu. (Forseti hringir.) Einnig vil ég brýna hæstv. ráðherra til að skoða eina leið sem ég veit ekki hvort hefur verið reynd til hlítar en manni finnst oft að (Forseti hringir.) blasi við í deilumálum eins og þessum að fara mögulega sáttaleið eða einhvers konar samningaleið.