144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

samgöngumál á Vestfjörðum.

[16:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það er ekkert launungarmál fyrir þá sem keyra þarna um að staðan er allsvakaleg, að fara þarna um. Það sem verður að krassandi lífsreynslusögu konu úr Kópavogi, þegar hún kemur heim eftir ferðalag þarna vestur, er hversdagslegur veruleiki fólksins sem býr þarna. Þetta snýst um lífsafkomu fólks og þetta snýst líka um lífsgæði. Þess vegna er það orðið gríðarlega brýnt að við förum að setja verðmiða á þessa deilu um Teigsskóg þannig að tími fólksins fyrir vestan sé líka metinn til fjár.

Ég er þeirrar skoðunar að það skipti máli, af því að ég veit að það er samhljómur hér inni, ég veit að við viljum koma Vestfjörðum í tengingu við umheiminn, að þingið fari á þessum tímapunkti að ákveða það hér í sameiningu, með ráðherrann í broddi fylkingar, að taka af skarið um að velja þá leið sem tekur stystan tíma fyrir samfélagið þarna fyrir vestan en er jafnframt ásættanleg og svarar kröfum um að vera öruggur láglendisvegur eins og kallað hefur verið eftir. Það er lykilatriði.

Ef það er þannig að lagasetning varðandi Teigsskógsleiðina leiði til áframhaldandi málaferla þá verðum við líka að meta það þannig. Þá verður það að vega mjög þungt í ákvörðun okkar og þá verðum við að taka ískalda ákvörðun um að fara allt aðra leið eins og hér var nefnt af hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur vegna þess að tíminn er farinn að skipta svo miklu máli.

Virðulegi forseti. Það er síðan efni í aðra umræðu, sú lækkun á fjármagni sem við horfum upp á til samgöngumála almennt í landinu. Það er efni í aðra umræðu vegna þess að við erum að sjá sögulega lágar tölur í því efni hjá þessari ríkisstjórn. Það er kostnaðurinn við það að menn séu að losa sig við skatttekjur, eins og við höfum orðið vör við hér að undanförnu, af veiðigjöldum og líka af hinum svokallaða auðlegðarskatti.