144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

samgöngumál á Vestfjörðum.

[16:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Líkt og aðrir hv. þingmenn þakka ég umræðuna sem ég held að hafi verið mjög málefnaleg og góð. Ég tek undir það, og það er enginn ágreiningur um það, held ég, í þessum sal, að þetta mál þolir ekki frekari bið. Það er reyndar komið á þann stað, og kannski fyrir löngu, að það þolir ekki frekari bið.

Þess vegna munum við sannarlega taka á því með þeim hætti sem hér var minnst á, með lausnamiðuðum hætti, berandi virðingu fyrir því að það þolir ekki bið, berandi líka virðingu fyrir því að hagsmunir íbúa eru mjög klárir og ákveðnir. Það eru ekki bara hagsmunir þeirra sem þarna búa heldur líka hagsmunir þeirra sem um svæðið fara, að hægt sé að fara í uppbyggingu o.s.frv.

Ég segi það sem ég hef sagt áður um þetta mál. Við verðum að finna á því lausn. Við höfum þegar fundað út af málinu. Við munum funda með þingmönnum Vestfjarða á morgun og ræða lausnirnar sem í boði eru.

Það er það sem er ánægjulegt við þetta mál ef eitthvað er ánægjulegt við það, ég tek undir með hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur í því, að samstaðan er til staðar hér. Ég held að hver einasti þingmaður á hinu háa Alþingi telji mikilvægt að leysa málið. Nú einhendum við okkur í það, reynum innan fárra vikna að finna hver er farsælasta lausnin, gerum það tiltölulega fordómalaust og reynum að gera það út frá hagsmunum þessa svæðis og hagsmunum samgangna þar. Þá hef ég ekki áhyggjur af því að við finnum ekki lausn. Við munum finna hana en hún getur ekki tekið þann tíma sem þetta mál hefur tekið. Það verður að finna á því lausn og ég veit að þingheimur fer með mér í það.