144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

nauðungarsala.

7. mál
[16:23]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að fallast á það mál sem hér liggur fyrir, frestun á nauðungarsölu fasteigna sem sannarlega eru heimili og aðsetur skuldara.

Hins vegar vil ég vekja athygli á því að það er gripið til þessa nú í tengslum við svonefnda skuldaleiðréttingaraðgerð ríkisstjórnarinnar sem er afar ólíklegt að muni hafa úrslitaáhrif gagnvart þeim sem eru í hættu að missa heimili á nauðungaruppboði, enda er sú aðgerð líklegri til að nýtast fólki sem er ekki í greiðsluvanda.

Það má líka vekja athygli á því, eins og ég geri í fyrirvara við þetta nefndarálit, að þær aðstæður eru uppi núna að innan tíðar verður leyst úr réttaróvissu um lögmæti annarra lána en verðtryggðra húsnæðislána. Í því ljósi mætti, fyrst nú er verið að fresta nauðungarsölum vonum seinna, líta til þess að umtalsverður hópur skuldara á enn á hættu (Forseti hringir.) að missa heimili sín vegna neytendalána. Samfylkingin leggst að sjálfsögðu ekki gegn þessu frumvarpi og mun greiða því atkvæði sitt.