144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

nauðungarsala.

7. mál
[16:25]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég er kannski svolítið seinn að nefna það en ég stökk ekki upp þegar breytingartillagan var kynnt nefndinni og þetta er eitthvað sem ég bjóst ekkert endilega við að yrðu greidd atkvæði um.

Breytingartillagan, eins og ég nefndi í meðferð málsins, felur í sér að þeir sem eru með verðtryggð neytendalán, sem þýðir öll verðtryggð húsnæðislán frá 2001, mundu líka falla undir þetta skjól. Ég vísa bara í umræðuna hvað varðar, það væru engin lagaleg rök fyrir því að gera það ekki. Við hefðum getað gert það núna, og vitið það hvað, það er enn þá hægt að gera það. Innanríkisráðherra getur farið í málið og það er hægt að klára það jafn fljótt og þetta mál, að stöðva nauðungarsölur hjá þeim sem munu fá úr því skorið hvort útfærsla verðtryggðra neytendalána sé ólögmæt eins og ESA segir, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Neytendastofa. Hagsmunasamtök heimilanna eru líka í dómsmáli gegn Íbúðalánasjóði. Við fáum úr þessu skorið fyrir Hæstarétti um mitt næsta ár, kannski fyrr. Við getum alveg eins komið þessu fólki líka í skjól.