144. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2014.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.

106. mál
[16:40]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér er annað svokallað EES-mál, frumvarp til laga um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta er ekki nýmæli. Það er töluvert síðan hér var innleidd frjáls för launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Það sem við erum að gera hér er að við erum að leggja til lögfestingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 492/2011 frá 5. apríl 2011, um frjálsa för launafólks innan Evrópusambandsins. Þessi reglugerð leysir sem sagt af hólmi eldri reglugerð nr. 1612/68 frá 15. október 1968, um sama efni sem var einmitt lögfest hér á landi með lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Við höfum breytt þessari reglugerð nokkrum sinnum í veigamiklum atriðum og hún var því endurútgefin 5. apríl 2011 í þeim tilgangi að auka skýrleika og hagræðingu í framkvæmd. Þessi reglugerð hefur verið hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið frá því að Ísland varð aðili að samningnum árið 1993.

Við leggjum nú þetta frumvarp fram í annað sinn. Það var áður lagt fram á 143. löggjafarþingi án þess að um það væri fjallað efnislega á því þingi.

Þetta mál felur ekki í sér efnislegar breytingar á gildandi lögum um sama efni, heldur erum við eingöngu að tryggja innleiðingu á nýrri reglugerð sem felur í sér endurútgáfu á eldri reglugerð. Það hljómar mjög spennandi.

Frumvarpi þessu er því ætlað að tryggja áfram frjálsa för launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Frjáls för launafólks telst til grundvallarréttinda launafólks og fjölskyldna þeirra innan Evrópska efnahagssvæðisins, en meginreglan um bann við mismunun að því er varðar launafólk felur í sér að allir ríkisborgarar aðildarríkjanna njóti sömu réttinda til vinnu og innlent launafólk. Það er grundvallaratriði. Hér er því meðal annars átt við atvinnu, launakjör og önnur starfs- og ráðningarskilyrði. Þess vegna ber jafnframt að geta þess að til launafólks teljast allir ríkisborgarar innan Evrópska efnahagssvæðisins sem sækja um og ráða sig í vinnu eða hafa góðar vonir um að fá vinnu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins á þeim tíma sem viðkomandi hefur rétt á að dvelja í landinu. Þau réttindi sem felast í þessum lögum hafa svo sannarlega sannað sig frá því að þau voru sett.

Frumvarp þetta fjallar einnig um rétt aðstandenda ríkisborgara aðildarríkjanna til að starfa innan svæðisins óháð þjóðerni og er nánar skilgreint hverjir falla þar undir. Enn á ný vil ég nefna að ekki er um að ræða breytingu frá gildandi lögum að því leyti. Til að auðvelda atvinnu- og búsetu launafólks í aðildarríkjunum er í frumvarpinu einnig ákvæði um rétt barna launafólks til náms meðan á dvölinni stendur, en þar kemur fram að börn ríkisborgara aðildarríkis sem er eða hefur verið ráðinn til að vinna á yfirráðasvæði annars aðildarríkis skuli eiga rétt á almennri menntun í því ríki.

Virðulegi forseti. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er reglugerðin þannig að fullu innleidd hér á landi og þau réttindi sem henni er ætlað að veita.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.