144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Svo vel þekki ég bændur að ég veit að þeir vilja ekki svíkja nokkurn mann. Þeir framleiða frábæra vöru og þeir vilja standa með heimilum landsins, þannig þekki ég þá. Ég hef stutt þá alla tíð.

Núna vakna hjá mér ýmsar spurningar. Úrskurður Samkeppniseftirlitsins í gær vegna athafna Mjólkursamsölunnar vekja mér ugg í brjósti og ég hef áhyggjur af þeim úrskurði. En það er rétt að gefa þeim sem þar véla um hlutina tíma til að mæta andmælum í málinu. Ef úrskurður Samkeppniseftirlitsins er réttur er aðeins eitt svar við því: Það verður að stokka spilin og gefa upp á nýtt, það er alveg ljóst.

Stuðningur minn við bændur er háður viðbrögðum og niðurstöðu þessa máls, það er mjög mikilvægt. Markaðsmisnotkun er glæpur gagnvart neytendum og í því getum við ekki tekið þátt.