144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Aðeins hefur verið sakfellt í einu mansalsmáli á Íslandi á undanförnum árum og kom það mál upp árið 2010 samkvæmt skýrslu sérfræðingahóps Evrópuráðsins sem kom út í gær.

Í skýrslunni segir að íslensk stjórnvöld hafi tekið mikilvæg skref í baráttunni gegn mansali og er það ekki síst því að þakka að við höfum undirgengist alþjóðlega samninga og sáttmála um þessi mál. Sérfræðingahópur Evrópuráðsins hvetur íslensk stjórnvöld hins vegar til að ganga lengra og taka félagasamtök og stéttarfélög með í þá vinnu. Bent er á að barátta stjórnvalda á Íslandi hafi aðallega beinst gegn mansali sem tengist kynferðislegu ofbeldi en minna hafi borið á aðgerðum gegn mansali sem tengist öðrum þáttum eins og almennri nauðungarvinnu. Þá bendir nefndarálit ráðsins á ýmsa þjónustustarfsemi, hótel- og skemmtanaiðnaðinn, þar sem áhætta er til staðar.

Sérstaklega er talað um nauðsyn þess að koma upp kerfi til að fylgjast með mansali sem tengist börnum, sem koma jafnvel ein síns liðs hingað til lands, erlendum farandverkamönnum og hælisleitendum.

Sérfræðingahópur Evrópuráðsins bendir á að þótt aðeins hafi verið sakfellt í einu mansalsmáli hérlendis á undanförnum árum hafi mun fleiri mál verið rannsökuð án þess að þau hafi leitt til sakfellingar. Hér þurfi hins vegar að koma á samræmdu kerfi þar sem fylgt er ákveðnum reglum og stöðlum þegar slík mál koma upp. Þá vanti samræmdan gagnabanka hér á landi sem hægt sé að fara í við rannsókn mansalsmála.

Evrópuráðið hvetur íslensk stjórnvöld til að sjá til þess að fórnarlömb mansals fái alla þau aðstöðu sem þau þurfa, þar á meðal húsnæði, menntun og félagslega þjónustu. Þannig sé hægt að sporna gegn því að viðkomandi verði aftur fórnarlamb mansals.

Það er full ástæða til að fagna þessari skýrslu sérfræðingahóps Evrópuráðsins um mansal á Íslandi og hvetja þingmenn til að kynna sér hana. Í framhaldi þarf síðan að skoða hvort ekki sé hægt að styrkja lagalega stöðu þeirra sem eru fórnarlömb mansals hérlendis.