144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Sjávarútvegur er ein af undirstöðuatvinnugreinum Íslendinga og öllum ljóst að mikil verðmæti felast í auðlindum hafsins. Það er hins vegar ekki á færi allra landsmanna að sækja í þessa auðlind nema gegn gjaldi til þeirra sem telja sig eiga hana. Hvað á ég við með því? Jú, með hlýnun sjávar koma hingað til landsins nýjar tegundir, svo sem blálanga, skötuselur, langlúra og síðar makríll. Þessar tegundir koma flestar fyrst að landinu suðvestanverðu. Í upphafi eru þessar tegundir utan kvóta og veiðar því frjálsar. Eðli málsins samkvæmt veiða sjávarútvegsfyrirtæki á Suðvesturlandi þessar tegundir og til verður veiðireynsla. Einhverjum árum síðar eru þessar tegundir settar í kvóta og tekur úthlutun þá mið af veiðireynslu.

Með tíð og tíma færa tegundir sig norðar og austur með landinu. Sjávarútvegsfyrirtæki á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum búa ekki yfir veiðireynslu á þessum nýju tegundum. Það þýðir að þau þurfa að leigja eða kaupa kvóta ætli þau sér að veiða og skapa verðmæti úr tegundunum.

Það má ekki skilja orð mín svo að hér sé um ranglæti að ræða en ég tel að við þurfum að huga að þessu til að skapa meira réttlæti í kerfinu. Ég vil ganga svo langt að segja að þetta sé hugsanlega ein af ástæðunum fyrir neikvæðri byggðaþróun í landinu. Núverandi fyrirkomulag stuðlar síður en svo að fjölbreytni í greininni sjálfri, enda eru þeir sem eru stórir og sterkir líklegri til þess að búa yfir veiðireynslu en hinir sem eru minni og meðalstórir og jafnframt þeir sem vilja hefja rekstur í sjávarútvegi.

Tökum dæmi: Veiðar á blálöngu vekja athygli í kringum 1980. Tekið skal fram að það eru til heimildir um veiðar á henni mun fyrr. Blálanga veiðist í auknum mæli sem meðafli við karfa- og grálúðuveiðar djúpt úti af Vestfjörðum en síðar í samræmi við aukna útbreiðslu tegundarinnar í stofnmælingum. Á síðasta fiskveiðiári var úthlutun í blálöngu 2.400 tonn. Það ár voru tvö fyrirtæki í Grindavík með um helming aflans í blálöngu, enda tekur úthlutun mið af veiðireynslu. Ljóst er að nýtingarréttur á auðlind í hafinu færist ekki sjálfkrafa til þrátt fyrir að auðlindin sjálf hafi sannarlega færst til. Hversu réttlátt er það ef við horfum til dæmis 20 ár fram í tímann?