144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Okkur berast eiginlega á hverjum degi góðar fréttir af efnahagslífi þjóðarinnar sem sýna fram á góðan árangur af störfum ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á því rúma ári sem hún hefur starfað. Til dæmis hefur launavísitala hækkað stöðugt undanfarna tólf mánuði. Þúsundir nýrra starfa hafa orðið til og þannig hefur atvinnuleysi óðum farið minnkandi og er nú rétt rúm 3%. Hagvöxtur er með því mesta sem við þekkjum í þeim löndum sem við berum okkur saman við og verðbólga hefur verið undir markmiðum Seðlabanka Íslands allt þetta ár, líklega í fyrsta skipti í sögunni.

Því eru það vonbrigði að sjá nýlega fréttir af því að á tímabilinu apríl–september hefur vöruverð hækkað í 9 af 14 verslunum sem ASÍ athugar verð hjá. Á því umrædda tímabili hefur gengi krónunnar gefið ögn eftir en ef horft er lengra aftur, t.d. ár aftur tímann, er styrking krónunnar hins vegar veruleg án þess að þess hafði sést merki í lækkandi vöruverði í verslunum.

Ég verð því að skora enn einu sinni á kaupmenn að skila inn í vöruverð þeirri styrkingu krónunnar sem orðið hefur frá til dæmis febrúar 2013 til dagsins í dag. Það verður að nefna að fyrirtæki hafa tekið á, samanber IKEA en þeir hafa gefið út að 5% lækkun verði á vöru þeirra næsta árið. En það er full þörf að hvetja til aðgátar í þessum málum þannig að árangurinn sem hefur náðst fjari ekki út.