144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Virðulegi forseti. Andlegt álag, vanlíðan, skert sjálfsvirðing og niðurbrot á andlegu og líkamlegu heilsufari er meðal helstu afleiðinga fátæktar. Þeir sem glíma við fátækt skilja hvað ég á við. Þessi einkenni valda því að fátækt fólk dregst úr þátttöku í samfélaginu, missir samkeppnisfærni og nýtur þar af leiðandi ekki þeirra gæða og tækifæra sem teljast sjálfsögð og eðlileg í samfélaginu.

Hvernig viðhöldum við lífsgleði okkar þegar við vitum að svo mörg okkar, þar á meðal börn, hafa svo lítið að gleðjast yfir? Við gerum það með því að firra okkur ábyrgð og felum ríkinu og stofnunum þess hlutverk bjargvættarins. Þannig getum við lokað augunum fyrir neyðinni og hætt að hugsa um hana. En á meðan við neitum að taka ábyrgð erum við ekki eitt fólk heldur hópar fólks sem hafa litla tilfinningu fyrir því hvernig annar hópur en þeirra eigin lifir og upplifa enga ábyrgð á aðstæðum hver annars. Hvaða áhrif hefur það á lýðræðið þegar stór hópur fólks upplifir sig utan kerfis? Þessi hópur hefur andúð á kerfinu og þeim lögum og reglum sem viðhalda því, enda upplifir þessi hópur andúð kerfisins.

Hvað er matarskatturinn og hækkun hans annað en andúð kerfisins á fátæku fólki? Áhrif skattsins verða þau ein að færa til kostnað innan kerfisins því að ef fólk neyðist til að skipuleggja mataræði sitt og fjölskyldu sinnar út frá sparnaði í stað heilsu liggur í augum uppi að kostnaðurinn endar í heilbrigðiskerfinu. Einhverjir hagfræðingar og peningateljarar munu eflaust reikna þann kostnað í krónum og vega og meta en fyrir okkur, almenning í landinu, verður heilsa okkar og barna okkar ekki metin til fjár.

Þegar ég velti fyrir mér hvers konar samfélag ég vil taka þátt í að skapa hugsa ég til róttæku hugmyndarinnar hans Thomas More um samfélag þar sem áhersla er lögð á að fyrirbyggja glæpi með því að útrýma fátækt frekar en að byggja á refsikerfi þar sem beinlínis er stuðlað að glæpum með ójöfnuði. Þegar ég spái í það er þetta alls ekki róttæk hugmynd heldur er það eðlilegt og rökrétt að vilja lifa í samfélagi þar sem fátækt og fylgikvillar hennar heyra sögunni til.