144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Niðurstöður skýrslu Barnaverndarstofu fyrir árið 2012 og 2013 liggja nú fyrir. Þar kemur fram að tilkynningum til yfirvalda sem hafði fækkað undanfarin ár hafi farið fjölgandi frá árinu áður eða um 8%. 36,2% tilkynninga voru vegna vanrækslu gagnvart börnum, 26,1% vegna ofbeldis gagnvart börnum, 37% vegna áhættuhegðunar barna og svo 0,7% vegna þess að heilsa eða líf ófædds barns var í hættu. Tilkynningarnar voru alls 8.615 og er það óhugnanleg tala í velferðarþjóðfélagi. Þá fjölgar tilkynningum í Reykjavík og á landsbyggðinni um 10% eða meira, en fækkar aðeins í nágrenni við Reykjavík. Alls vörðuðu tilkynningarnar 4.880 börn á árinu 2013 og voru drengir í meiri hluta tilfella.

Mál 69% barna sem tilkynnt var um á árinu 2013 fóru í könnun eða voru opin barnaverndarmál. Þetta hlutfall hefur farið vaxandi á síðustu árum, en t.d. var það 60% árið 2011. Ekki er vitað hvort þessi aukning stafi nákvæmlega af meira svigrúmi barnaverndarnefnda til þess að kanna mál eða hvort málin séu nú alvarlegri en fyrr. Það er mjög slæmt að vita ekki hvort þetta stafi af góðu eða slæmu í eins alvarlegu máli og hér er rætt.

Í þessu starfi vinnur Barnahús mikilvægt starf þar sem hlutverk þeirra er að skapa vettvang fyrir samstarf og samhæfingu stofnana sem bera ábyrgð í rannsóknum og meðferð mála er varða ofbeldi gegn börnum.

Það er hlutverk okkar hv. þingmanna að vinna að umhverfi þar sem forvarnir og inngrip sem fyrst eigi greiða leið. Börnum á Stuðlum og öðrum meðferðarheimilum hefur fækkað í kjölfar aukinnar meðferðar barna í nærumhverfi þeirra. Skylda okkar er að vernd barna nái inn fyrir þröskuld heimilanna.