144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku birtist í Morgunblaðinu frétt um að Árni Friðriksson hefði haldið í árlegan haustleiðangur til loðnurannsókna. Að sjálfsögðu fagnaði ég því. Það sem vakti mig til umhugsunar var hins vegar að ríkisstjórnin hefði þurft að samþykkja aukafjárveitingu til að Árni kæmist á sjó, í þriggja vikna túr til að Hafró gæti úthlutað réttum loðnukvóta fyrir næstu vertíð.

Ég skal viðurkenna að það er tignarleg sjón að ganga niður á Ingólfsgarð og horfa á nýtt og glæsilegt hafrannsóknaskip við kajann öðrum megin og hinum megin nýtt og stórglæsilegt varðskip — sem við tímum þó ekki að kaupa olíu á nema stórslys verði — og ég tala nú ekki um stórt og glæsilegt tónlistarhús sem er uppi á kajanum, Hörpu.

Við sem hreykjum okkur af því á tyllidögum að vera mikil siglinga- og fiskveiðiþjóð hljótum að vera stolt af þessum eignum okkar. En það er sama hvað skipin eru stór og glæsileg, í landi gera þau lítið gagn og eru ekki bara gagnslaus heldur taka talsvert til sín af fjármagni. Aukakostnaður hjá Hafró er að vísu 1,5 milljónir á dag þegar skipið er á sjó en til samanburðar er gert ráð fyrir 1,5 milljónum í Hörpu á næstu árum.

Því spyr ég: Er ekki umhugsunarefni fyrir okkur í þinginu, og hugsa ég þá sérstaklega til fjárlaganefndar, að ríkisstjórn þurfi að samþykkja aukafjárveitingu til að Árni komist á sjó? Það er mikið í húfi að Hafró geti rannsakað lífríkið í lögsögu okkar því að staðreyndin er sú að erfitt er að fullnýta okkar auðlindir með samþykki alþjóðasamfélagsins án rökstuðnings vísindamanna. Við verðum að nota öll okkar tól, og ekki síst okkar glæsilega rannsóknaskip Árna Friðriksson, til (Forseti hringir.) að rannsaka lífríkið og fullnýta auðlindir okkar.