144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

byggingarvörur.

54. mál
[14:06]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um byggingarvörur. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð ESB nr. 305/2011, um samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara. Reglugerðinni er ætlað að leysa af hólmi eldri tilskipun ráðsins 89/106/EBE, um samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara, en sú tilskipun var innleidd á sínum tíma með reglugerð um viðskipti með byggingarvörur nr. 431/1994.

Ákvæði um viðskipti með byggingarvörur eru í lögum um mannvirki og er gert ráð fyrir að frumvarp þetta, verði það að lögum, leysi þá af hólmi þau ákvæði laga um mannvirki. Reglugerð ESB um samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara tók gildi í apríl 2011 innan Evrópusambandsins en gildistöku meginhluta hennar var hins vegar frestað til 1. júlí 2013.

Eins og frumvarpið ber með sér kallar reglugerð ESB á lagabreytingar hér á landi og var því ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka hana upp í EES-samninginn tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands.

Stjórnskipulegum fyrirvara var hins vegar aflétt af hálfu Alþingis þann 16. maí sl., á vorþingi, og því brýnt að ljúka innleiðingu reglugerðarinnar sem fyrst í ljósi þess að aðildarríki hafa sex mánuði til að ljúka innleiðingu eftir að slíkum fyrirvara hefur verið aflétt.

Þá er einnig afar mikilvægt fyrir byggingarvörumarkaðinn á Íslandi, m.a. í ljósi markmiðs um frjálst flæði byggingarvöru innan Evrópu, að reglugerðin verði innleidd sem fyrst og þar með það sameiginlega kerfi sem reglugerðin gerir ráð fyrir. Að öðrum kosti verður samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja á þessu sviði ekki tryggð.

Í þessu sambandi skal tekið fram að frumvarp þetta hefur nú þegar tvívegis verið lagt fram á Alþingi, þ.e. á 141. og 143. löggjafarþingi.

Hin nýja reglugerð ESB er skýr og ítarleg og tók undirbúningur hennar langan tíma. Því er ekki fyrirsjáanlegt að breytingar á henni verði tíðar innan Evrópusambandsins. Vegna þessa og til að tryggja skýra lagastoð hennar er reglugerðin lögð fram sem fylgiskjal með frumvarpi þessu og þar með lagt til að henni verði veitt beint lagagildi. Í september 2012 hélt ráðuneytið, ásamt Mannvirkjastofnun, samráðsfund með Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu um efni reglugerðar um samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara og innleiðingu hennar og voru drög að frumvarpi þessu send í kjölfarið níu aðilum til umsagnar.

Ráðuneytinu bárust umsagnir um frumvarpið frá nokkrum aðilum og voru í kjölfarið gerðar nokkrar breytingar á frumvarpsdrögunum.

Í hinni nýju reglugerð um samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara er að meginstefnu til byggt á sömu sex grunnkröfum og í eldri tilskipun auk nýrrar grunnkröfu um sjálfbærni. Byggingarvara skal því henta til byggingar mannvirkja og fullnægja tilteknum grunnkröfum sem flokkaðar eru í burðarþol og stöðugleika, varnir gegn eldsvoða, hollustu, heilsu og umhverfi, öryggi við notkun, hávaðavarnir, orkusparnað, hitaeinangrun og sjálfbæra nýtingu auðlinda.

Samkvæmt reglugerðinni ber framleiðendum að gera yfirlýsingu um nothæfi byggingarvöru áður en hún er sett á markað, þ.e. ef varan fellur undir samhæfðan staðal eða samræmist evrópsku tæknimati sem gefið hefur verið út fyrir vöruna. Í eldri tilskipun er fjallað um tæknisamþykki í stað evrópsks tæknimats. Í samhæfðum stöðlum og evrópsku tæknimati er sagt til um hvaða aðferðum framleiðandi skal beita til að meta nothæfi byggingarvöru.

Í yfirlýsingu um nothæfi byggingarvöru skal koma fram til hvaða nota varan er ætluð og felast í henni greining á því hvaða „mikilvægu eiginleika“ varan hefur og þannig hvaða eiginleikar hennar tengjast grunnkröfunum fyrir mannvirki.

Með yfirlýsingu ábyrgist framleiðandinn samræmi byggingarvörunnar við tilgreint nothæfi.

Í reglugerð um samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara er skýrt kveðið á um skyldu til að CE-merkja byggingarvörur sem falla undir samhæfða staðla eða evrópskt tæknimat. Sú skylda er nú þegar til staðar í lögum um mannvirki. Byggingarvörum sem skylt er að CE-merkja hefur fjölgað mikið á síðustu árum, en um það bil 420 samhæfðir staðlar og 3 þús. tæknisamþykki hafa verið gerð á grundvelli eldri tilskipunar. Ákvæði í reglugerðinni um skyldur framleiðenda, innflytjenda og dreifenda fela ekki í sér neinar grundvallarbreytingar frá fyrra fyrirkomulagi en eru þó mun skýrari en áður. Falli byggingarvara undir samhæfðan staðal er skylt að gera yfirlýsingu um nothæfi fyrir vöruna og CE-merkja hana. Geri hún það ekki hefur framleiðandi val um það hvort hann sækir um evrópskt tæknimat vegna hennar, sem veitir honum þá rétt til að CE-merkja vöruna, eða hvort hann markaðssetur hana án CE-merkis. Mun ítarlegri og skýrari reglur eru í hinni nýju reglugerð um kröfur til þeirra sem gefa út „evrópskt tæknimat“ og ítarlegri reglur um málsmeðferð. Tilkynningaryfirvöld, þ.e. stjórnvöld, tilnefna tæknimatsstofnanir og fylgjast með starfsemi og hæfi þeirra.

Íslensk stjórnvöld tilkynntu Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem tæknisamþykkisstofnun á grundvelli tilskipunar 89/106/EBE. Ekkert evrópskt tæknisamþykki hefur þó verið gefið út á Íslandi.

Aðildarríkjum ber að tilkynna framkvæmdastjórninni og öðrum aðildarríkjum um aðila sem hafa heimild til að framkvæma samræmismat. Byggt er á sama kerfi og áður en ítarlegri reglur eru um samræmismatið og auknar kröfur gerðar til tilkynntra aðila, en þeim er heimilt að starfa á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og gilda niðurstöður þeirra óháð landamærum.

Í reglugerðinni er leitast við að taka upp einfaldari og hagkvæmari málsmeðferð, sérstaklega fyrir smærri fyrirtæki, þar sem ferli CE-merkingar hefur verið talið íþyngjandi og dýrt.

Frumvarp þetta er í fjórum köflum ásamt reglugerð ESB nr. 305/2011 sem er fylgiskjal með frumvarpinu.

Í I. kafla frumvarpsins er kveðið á um þá meginreglu laga um mannvirki að óheimilt sé að nota byggingarvörur til mannvirkjagerðar nema þær uppfylli kröfur laganna. Einnig er kveðið á um ábyrgð eiganda mannvirkis, en hann kostar gerð mannvirkisins og rekstur og ber því endanlega ábyrgð á vali á byggingarefni. Um ábyrgð fagaðila fer hins vegar samkvæmt mannvirkjalögum.

Í II. kafla frumvarpsins er fjallað nánar um framkvæmd reglugerðar ESB. Lagt er til að Mannvirkjastofnun gegni hlutverki vörutengiliðar fyrir byggingariðnaðinn og að upplýsingar frá stofnuninni séu að meginreglu til veittar án endurgjalds.

Lagt er til að yfirlýsing um nothæfi byggingarvöru skuli að meginreglu til vera á íslensku sem og leiðbeiningar um notkun byggingarvöru og upplýsingar um öryggi. Hins vegar þykir nægjanlegt að gögn um byggingarvöru sem afhenda ber Mannvirkjastofnun geti verið á tungumáli sem stofnunin samþykkir. Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra tilnefni tæknimatsstofnanir og annist eftirlit með þeim. Ráðherra sér einnig um tilkynningar til stjórnvalda á EES-svæðinu um aðila sem hafa heimild til að framkvæma verkefni þriðja aðila við mat á nothæfi og sannprófun á stöðugleika þess og hefur eftirlit með tilkynntum aðilum.

Samkvæmt reglugerð ESB er einungis heimilt að nota þær aðferðir til að meta nothæfi byggingarvöru sem tilgreindar eru í samhæfðum stöðlum eða evrópsku tæknimati og eru samhæfðir staðlar því skyldubundnir. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að samhæfðir evrópskir staðlar sem samþykktir eru á grundvelli reglugerðarinnar og innleiddir af Staðlaráði Íslands séu skyldubundnir og að yfirlit yfir þá sé birt á vefsíðu Mannvirkjastofnunar.

Í III. kafla frumvarpsins eru settar fram kröfur er varða byggingarvörur sem ekki falla undir samhæfðan evrópskan staðal eða evrópskt tæknimat og eru því utan gildissviðs reglugerðar ESB nr. 305/2011. Meginreglan er sú að gera skal yfirlýsingu um nothæfi byggingarvöru áður en hún er markaðssett eða notuð í mannvirki, sambærilega yfirlýsingu um nothæfi samkvæmt reglugerð ESB.

Í kaflanum eru einnig tilgreindir þeir eiginleikar og þættir vörunnar sem gera þarf grein fyrir og krafa gerð um staðfestingu óháðs aðila á nothæfi byggingarvöru.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að staðfestingar á nothæfi sem gefnar eru út af viðurkenndum aðilum á EES-svæðinu séu teknar gildar á Íslandi. Þá er að lokum í IV. kafla frumvarpsins fjallað um opinbert markaðseftirlit, heimild til skoðunar og upplýsingaskyldu, réttarúrræði Mannvirkjastofnunar, dagsektir, förgun byggingarvöru, lagfæringu o.fl. Ákvæði þessi eru að mestu leyti sambærileg eða samhljóða gildandi ákvæðum mannvirkjalaga.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.