144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

byggingarvörur.

54. mál
[14:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er engu logið um það að hæstv. ráðherra getur verið skýr í framsetningu á mjög flóknum málum og hugsanlega eru þeir ráðgjafar sem hann styðst við ákaflega skýrir í að undirbúa og það er vel. Ég gæti fallið í þá freistni að stríða hæstv. ráðherra með því að segja, þegar hann talar um að nauðsynlegt sé að hraða innleiðingu þessa máls, að það sé auðvitað í takt við Evrópustefnu hinnar nýju ríkisstjórnar um að innleiða sem allra fyrst allar tilskipanir sem koma frá ESB. Má minnast þess Íslandsmets sem hæstv. ráðherra tók þátt í á síðasta þingi að innleiða reglugerð í íslenskan rétt áður en búið var að staðfesta hana og setja formlega hjá ESB. En ég ætla ekki að gera það af því ég vil ekki æsa hæstv. ráðherra upp eins og ég hef stundum gert án þess að ætla mér það.

Hæstv. ráðherra segir að það þurfi að innleiða eða hraða þessu máli vegna þess að ella muni samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja skerðast. Nú er það svo að forveri þessarar reglugerðar var fræg fyrir það hvað hægt var að túlka hana á mismunandi vegu og framkvæmdin hefur verið með öllu móti í löndum Evrópusambandsins, mjög mismunandi. Ég held að ekki sé hægt að segja að þrátt fyrir það hafi samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja skerst með einhverju móti.

Ég tek það fram að ég ætla ekki að bregða fæti fyrir þetta mál, ég held að ég styðji það. Mig langar bara að ráðherra dýpki málið enn betur í vitund minni með því að útskýra fyrir mér að hvaða leyti það mundi skerða samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja jafnvel þótt svo færi að það yrði löng bið á því að samþykkja þetta frumvarp.