144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

byggingarvörur.

54. mál
[14:18]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að í hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni á ríkisstjórnin bandamann í því efni að (Gripið fram í.) að innleiða þær tilskipanir sem við þurfum að fara í gegn með vegna EES-samningsins og sem við erum búin að fara í gegnum í ráðuneytunum og komast að að séu skynsamlegar og útfæra samkvæmt þeim sjónarmiðum sem við getum notað hér á Íslandi, innan þess ramma sem innleiðingin leyfir okkur. Við þekkjum að stundum koma hér hlutir sem okkur finnst vera hálfkjánalegir eins og banna að ryksugur megi vera meira en 1.600 vött o.s.frv., og stefnir jafnvel í að verði enn þá lægra. Stundum þurfum við að innleiða slíka hluti til þess að viðhalda rétti okkar á EES-samningnum.

Varðandi ólíka túlkun á byggingarreglugerðinni í Evrópu get ég tekið undir með hv. þingmanni að það er mjög margt sem orkar tvímælis í túlkun þeirra reglna sem við erum að rembast við að setja hér og innleiða, sumt vegna þess að okkur finnst það skynsamlegt eins og heilbrigðiskröfur í matvælagerð. Sjálfur var ég í Grimsby í síðustu viku og skoðaði þar fiskvinnslur samkvæmt hefðbundnu ensku fyrirkomulagi. Þær hefðu aldrei fengið náð fyrir augum íslenskra heilbrigðisyfirvalda, hvað þá ef ESA hefði komið í heimsókn og tekið þær út. Þær virðast hafa fengið að blómstra innan ESB eins og ekkert væri. Það sama gildir um byggingarreglugerðina að einhverju leyti.

Það er hins vegar þannig að fyrirtæki sem hyggjast hasla sér völl á Evrópumarkaðnum þurfa að geta uppfyllt þessi skilyrði, ég get nefnt t.d. steinullarverksmiðjuna. Það virðist nú vera þannig þegar um íslensk fyrirtæki er að ræða sem eru að sækja út eða íslenskan eftirlitsiðnað að þegar ESA kemur hér og lítur yfir öxlina á okkur þurfum við einhverra hluta vegna að uppfylla öll skilyrði 100%, sem margir innan (Forseti hringir.) Evrópusambandsins virðast komast upp með að fara mismunandi höndum um.