144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

53. mál
[14:36]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég hafi ekki svo stórar áhyggjur af því. Vissulega eru sveitarfélögin misjöfn að stærð og getu en minni sveitarfélög hafa yfirleitt komið sér saman í byggðasamlögum, bæði um skipulags- og byggingarmál og jafnvel um tæknimál. Þá ber að geta þess að Skipulagsstofnun er sannarlega með leiðbeiningarskyldu er þetta varðar og mun gefa út leiðbeiningar varðandi það hvernig á að nálgast þessi mál. Svo tel ég að þegar sveitarfélögin standa frammi fyrir tilvikum þar sem umfangsmikla rannsókn þarf að gera til að komast að niðurstöðu muni þau leitast við að gera það. Ég held að í fyrirspurn hv. þingmanns hafi komið fram sú meginafstaða okkar að leggja til að fara þá leið að fela sveitarfélögunum þetta. Að langstærstu leyti eru þetta minni háttar framkvæmdir sem hefðu þurft að fara óþarflega íþyngjandi leið en í þeim tilvikum þar sem það er ekki og menn þurfa að leita sér sérfræðiaðstoðar eða annað munu þeir leita til Skipulagsstofnunar eða horfa til þeirra leiðbeininga sem Skipulagsstofnun hefur gefið út og síðan til sérfræðinga, eða hafa tryggt það með einhverjum byggðasamlögum eða á annan hátt að þeir hafi nægilega getu til þess að fjalla um þetta.

Ég hræðist það ekki. En meginástæðan fyrir því að þessi leið er valin er að langstærsti hluti þessara framkvæmda er minni háttar og hefði verið óþarflega íþyngjandi að fara þá leið sem áður var lagt til, í það minnsta að mati þess sem hér stendur.