144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

umferðarlög.

102. mál
[14:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni og ég ætla ekki að draga dul á að það er ekki þannig að allir séu sáttir við að þetta sé nákvæmlega með þessum hætti. Tilraunin sem gerð var var sú að reyna að nálgast betur tímaviðmiðin og setja inn ákvæði sem miðast við 2018 þannig að ákveðnir hlutir koma ekki til framkvæmda fyrr en þá. Það var gert til þess að koma til móts við kröfur bílstjóra. Einnig var komið til móts við bílstjóra varðandi fyrirkomulag kennslu sem við teljum að geti verið þannig að endurmenntunin fari ekki einungis fram á einum stað heldur geti hún farið fram víða um landið, í gegnum netið o.s.frv. Það var aðallega það fyrirkomulag sem menn reyndu að ná sátt um.

Hins vegar er það svo, og ætla ég ekki að draga dul á það, að ákveðinn hópur atvinnubílstjóra telur einfaldlega að hann eigi ekki að undirgangast endurmenntun á fimm ára fresti, hann telur einfaldlega að á því sé ekki þörf, að sé verið að endurmennta atvinnubílstjóra á Íslandi í samræmi við þörfina í Evrópu. Það breytir engu um að við erum búin að undirgangast þessar reglur. Við þurfum að innleiða þær. En það er enn þá skoðun margra atvinnubílstjóra að endurmenntun eigi einfaldlega ekki að eiga sér stað. Sáttin náðist kannski frekar um fyrirkomulagið en um það hvort þetta eigi að vera til staðar eða ekki.