144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

umferðarlög.

102. mál
[15:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að ræða það við hv. þingmann hvort hér sé á ferðinni eitthvert smyglgóss, eins og ég held að hann hafi orðað það. Ég sagði áðan og ítreka það að að ákveðnu leyti er þetta innleiðing á því sem við þurfum að innleiða. Síðan kemur skýrt fram, og er vísað í ýmis lög í því sambandi, að við teljum okkur þurfa að skerpa á öryggiskröfum er varða þessi ökutæki. Það er líka tilgangurinn. Það er enginn í neinum feluleik með það. Við erum að reyna að skerpa á ákveðnum þáttum sem lúta að öryggi þessara tegunda ökutækja og í því felst breytingin. Það er enginn að líta fram hjá því, en ákveðnum þáttum var breytt.

Ég hvet hv. þingmann til að bera saman frumvarpið eins og það var og eins og það er núna og þá sér hann ákveðnar breytingar. Sumar skilgreiningar lutu til dæmis að hæð þeirra sem notuðu þessi ökutæki, nú er það aldur o.s.frv., þannig að það eru gerðar ákveðnar breytingar þar sem tekið var mið af umræðunni. Það er enginn að reyna að smygla neinu í gegnum þingið, ég fullyrði það. Hluti af þessu eru innleiðingarákvæði, annað lýtur að því sem við teljum að þurfi til að tryggja aukið öryggi þessara farartækja.