144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

umferðarlög.

102. mál
[15:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er löng umræða og lengri kannski en þessi umræða hér í dag gerir ráð fyrir um hjálmanotkun. Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi varðandi það hvenær og á hvaða aldri einstaklingum er skylt að vera með hjálma. Það var ákveðið, líkt og ég kynnti hér áðan í byrjun á framsöguræðu minni, að það sem við erum að innleiða núna taki til brýnna þátta og ákveðinna innleiðingarþátta. Hlutirnir sem tengjast því sem hv. þingmaður nefndi eru einfaldlega hluti af heildarendurskoðuninni sem hefur ekki farið fram. Það er ákveðinni vinnu lokið í ráðuneytinu og það var ákveðið að taka þá heildarendurskoðun ekki inn í þetta frumvarp, þannig að það svarar spurningunni um hjálmanotkunina.

Í þessu frumvarpi er, eins og ég hef ítrekað sagt, ekki tekið á því. Það var hins vegar gert í þessari heildarendurskoðun sem við höfum ákveðið að bíða með en verður sjálfsagt og án nokkurs vafa nokkuð mikil umræða um það þegar það kemur til kasta þingsins.