144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

15. mál
[15:32]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst ég einhvern veginn þurfa að það taka það fram í umræðunni hér — ég hef þurft að gera það áður, þegar maður kemur hér inn sem varamaður — að ég er ekki að setja fram spurninguna til að draga úr málinu eða vera með kaldhæðni eða neitt svoleiðis, ég er aðallega áhugamaður um málið.

Ég er sammála þingmanninum um að það þarf sannarlega að ræða gjaldmiðilsmálin og margt af því sem fram kemur í þingsályktunartillögunni er mjög gott. Mér finnst vanta inn í þingsályktunartillöguna konkret tillögur um hvað það sé almennt sem Björt framtíð vill gera. Jú, hún vill ganga í Evrópusambandið en það eitt og sér er svo sem ekki lausn á efnahagsvanda Íslendinga.

Þingmaðurinn hefur þá tækifæri til að koma aftur hér í seinna andsvari og halda áfram að útskýra stefnu Bjartrar framtíðar. Og ég ætla að taka það aftur fram: Þetta er ekki sett fram til að klekkja á einum eða neinum, þetta er meira til að skapa umræðu.