144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

15. mál
[15:36]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir góða tillögu og góða ræðu. Ég er mikil áhugamanneskja um að skoða hlutina heildrænt og reyna að skoða rót vandans. Mér finnst varhugavert hversu upptekin við erum sem þjóð af því að meðhöndla alltaf einkennin frekar en sjúkdóminn.

Ég velti því fyrir mér hvort krónan sé raunverulega rót vandans eða hvort það sé peningakerfið sem við erum búin að skapa. Það sem er kallað brotaforði bankakerfisins gerir það t.d. að verkum að bankar geta margfaldað peningana sem eru í umferð í samfélaginu án þess að Seðlabankinn hafi nokkra stjórn á því. Ég velti því fyrir mér að þótt það komi einhver nýr gjaldmiðill hvort það sé lausn á vandamálinu ef kerfið er brotið á þennan hátt.