144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

15. mál
[15:48]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tala fyrir Samfylkinguna og útskýri stefnu hennar og rökstyð. Hún byggir í þessu máli á þörfinni á alvörugjaldmiðli, eins og ég rakti. Við teljum þess vegna mjög mikilvægt að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og leggja samning í dóm þjóðarinnar.

Það er ekki bara að íslenska krónan sé ekki gjaldgeng í öðrum löndum. Hún hefur í áranna rás ekki einu sinni getað gegnt hlutverki sínu sem vörslueining verðmæta. Við þekkjum allar tilraunirnar til þess að lifa við hana, verðtrygginguna, sem enginn virðist samt sætta sig við í dag. Forveri verðtryggingarinnar var allra handa hlutatrygging. Ég þekki sögu af manni sem rak steypustöð. Þegar menn komu og fyrir fram greiddu steypuna en vildu fá steypuna afhenta ári seinna í 60% verðbólgu sat hann uppi með peningana. Hvað átti hann að gera? Jú, hann keypti dekk, bíldekk. Þau voru innflutt, fóru ekki úr tísku, stöðug eftirspurn, og síðan þegar hann þurfti að greiða laun seldi hann dekk og þegar honum áskotnaðist fé keypti hann meira af dekkjum. Dekkin voru því vörslumáti verðmæta, því að það var ekki hægt að leggja íslenskar krónur í banka. Þetta er sagan um veikleika íslenskrar krónu.

Á fundaferð minni um Norðausturland fyrir nokkru síðan, þar sem ég hitti hv. þingmann, var einn ágætur maður á fundi sem sagði: Á Íslandi er bara einn gjaldmiðill sem virkar og það er steinsteypan. En vandinn er sá að hann virkar bara á suðvesturhorninu. Ég held að það sé ekki hægt að orða harmsögu íslenskrar krónu betur en þessi ágæti maður gerði. Og stefna okkar í Samfylkingunni er sú að tryggja okkur lausn undan þessari áþján sem fyrst.