144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

15. mál
[15:50]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna. Ég vona að þingsályktunartillagan fái núna almennilega umfjöllun í efnahags- og viðskiptanefnd. Á síðasta vetri tókst ekki einu sinni að fá hana rædda þar, þannig að ég vona að það takist núna. Það er kannski lýsandi fyrir það hversu erfiðlega gengur að ræða fyrirkomulag gjaldmiðilsmála á Íslandi að tillagan fékkst ekki einu sinni rædd þrátt fyrir jákvæðar umsagnir frá lykilaðilum í atvinnulífinu.

Aðeins um umræðuna: Hv. þingmanni var umhugað um muninn á Bjartri framtíð og Samfylkingu. Mér finnst svolítið merkilegt að í hugum einhverra skuli það vera sérstök tíðindi að tveir flokkar vilji nýjan gjaldmiðil á meðan við höfum lengi búið við það ástand að fremur margir flokkar vilja búa við íslenska krónu. Eru þeir þá allir eins? Ég veit það ekki, ég held ekki. Eru Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur eins flokkar? Mér finnst það reyndar áleitin spurning, þeir eru orðnir mjög svipaðir. Þeir eru báðir eindregnir stuðningsaðilar þess að hafa íslenska krónu í einhverju móti. Reyndar vildi Framsóknarflokkurinn um skeið athuga upptöku evru, en það var á þeim tíma sem enn var barátta innan Framsóknarflokksins milli afturhaldssamra gilda, að mínu mati, og frjálslyndra gilda.

Björt framtíð er frjálslyndur flokkur, hún er frjálslynt afl í íslenskum stjórnmálum. Frjálslyndi í okkar huga felur í sér að það sé eitt meginhlutverk ríkisvaldsins að skapa almennan grundvöll, að skapa almennan grundvöll fyrir einstaklinga og samtök þeirra til þess að gera það sem þeir gera best, það sem þá langar til og þar fram eftir götunum. Þess vegna viljum við til dæmis breyta landbúnaðarkerfinu þannig að fjármunum sé ekki varið í að ýta undir einsleitni, að menn fái pening til þess að stunda sauðfjárbúskap og kúabúskap en geti í raun og veru ekki gert neitt annað. Þetta er villa í hlutverki ríkisvaldsins, við eigum að skapa almennan grundvöll.

Eins og var ágætlega rakið í ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar hefur krónan ekki skapað þennan almenna grundvöll. Hún hefur hentað sjávarútveginum ágætlega, tilteknum útflutningsatvinnuvegi. Hún hefur flutt peninga frá almenningi í gegnum verðtryggt lánakerfi. Lánin okkar hækka þegar krónan fer niður. Þegar krónan fer niður græðir sjávarútvegurinn en þegar krónan fer niður tekur almenningur á sig auknar byrðar. Þannig hefur krónan flutt til fjármuni frá almenningi, frá hinum mörgu til fárra um áratugaskeið. Þetta er ekki frjálslynd efnahagsstjórn, á engan hátt, að mínu viti.

Beinharða afleiðingin er sú að við höfum einsleitt atvinnulíf, sem er ágætlega rakið í skýrslu Seðlabankans um valkosti í gjaldmiðilsmálum. Það sem við þurfum er stöðugur almennur grundvöllur þar sem fólk getur geymt fjármuni. Það er ein kríterían, ein forsenda gjaldeyrisstefnu sem við nefnum, að það sé einfaldlega hægt geyma fjármuni í þessum gjaldmiðli, að það sé hægt að eiga viðskipti með hann í útlöndum og það sé hægt að gera áætlanir á grundvelli hans og með notkun hans. Þetta væri sá almenni grundvöllur í anda frjálslyndrar stjórnmálastefnu, sem Björt framtíð aðhyllist, sem þarf að skapa á Íslandi og er eitt höfuðmarkmið íslenskra efnahagsmála að okkar viti.

Það var ágæt spurning hér í umræðunni um hver væri orsökin og hver væri afleiðingin. Ég held að þetta sé margþætt. Sumir segja að það hvernig krónan sveiflast til og frá endurspegli einfaldlega hagstjórnina á einhvern hátt og hún sé bara mælitæki. Það er að hluta til rétt. Við þurfum alltaf að hafa skynsamlega hagstjórn. En krónan er líka tæki, gjaldmiðillinn er tæki sem við notum í hagstjórn og við verðum að velja rétt tæki, við verðum að hafa rétt tæki og tól til að geta stundað skynsamlega hagstjórn. Krónan er einfaldlega það lítil, hún nýtur ekki trausts og má sín lítils á alþjóðafjármálamörkuðum, að hún er ekki hentugt tæki.

Það er líka lýsandi fyrir ógöngurnar sem við erum komin í sem þjóð með þennan gjaldmiðil að í stað þess að leiðrétta einmitt forsendurnar í íslensku efnahagslífi, sem birtust í hruni krónunnar 2008 og ótrúlegri hækkun á höfuðstól verðtryggðra lána í kjölfarið, var farið í að leiðrétta þennan forsendubrest sem var kallaður svo. Það var farið í það og á næstu fjórum árum munum við veita 20 milljarða úr ríkissjóði í að leiðrétta þennan forsendubrest sem kallaður er. Þetta er einmitt afleiðing forsendnanna, þær eru svona. Krónan fellur, almenningur tekur á sig byrðar. Ætlum við að bregðast við þessu þannig að í hvert einasta skipti sem þetta gerist ætlum við að finna tekjustofn og setja 20 milljarða á ári úr ríkissjóði til að leiðrétta það? Mér finnst það ekki skynsamlegt. Mér finnst það ótrúlega óábyrg efnahagsstjórn. Betra væri að koma okkur í var og leiðrétta forsenduna sjálfa, hætta að nota þessa íslensku krónu sem leiðir til þessara hörmunga. Það er það sem þetta gengur öðrum þræði út á, að reyna að koma okkur út úr þessu óefni.