144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[16:13]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir að vinna að þessu máli. Ég hef svolítið verið að fylgjast með Finnlandi. Finnsk stjórnsýsla og ráðamenn í Finnlandi ákváðu að bregðast strax við þegar ljóst var að Nokia væri ekki lengur finnskt, til þess að fyrirbyggja að allt fólkið sem var búið að sérhæfa sig í þannig vinnu í tæknigeiranum mundi hverfa úr landi.

Mig langaði að spyrja þingmanninn hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að við hreinlega missum af lestinni ef ekki verður farið strax af stað, af því að í þessari þingsályktun tölum við um að þetta geti tekið langan tíma. Það eru nú þegar nokkur lönd sem þykja orðið samkeppnishæfari. Það þarf að vera eitthvað aukalega með. Hvaða sérstöðu hefur Ísland sem mundi fá fólk til að vilja vera með fyrirtæki hér ef netvæna Ísland verður ekki að veruleika innan kannski tveggja, þriggja ára? Erum við þá jafnvel búin að missa tækifærið, ef við erum of svifasein, eins og er mjög algengt með stjórnsýslu hér sem og annars staðar?