144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[16:16]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég hef rosalega mikinn áhuga á að fá upplýsingar um hver þessi réttaróvissa er. Ef við ætlum að ná að skapa okkur sérstöðu hér og skapa vistvænt umhverfi eru nokkur atriði, ég sem mun rekja í ræðu á eftir, sem gefa okkur ákveðið forskot. Aftur á móti er tregða í stjórnsýslunni við að nýta sér þær góðu aðstæður sem við höfum nú þegar með því að útrýma lagalegu óvissunni og það er mér áhyggjuefni. Ég spyr til þess að fá það hreinlega sett í hina sögulegu geymd ef við missum af þessu tækifæri að allir vissu af því. Viljum við ekki skapa atvinnutækifæri hér þar sem fólk, og nú erum við með gríðarlega menntaða þjóð, getur unnið við störf sem hæfir menntun þess? Við gerum það ekki með því að byggja fleiri álver eða áburðarverksmiðju heldur gerum við það með því að skapa spennandi starfsumhverfi með góðum launum.

Ég hvet því hv. þingmann til dáða við að ýta á eftir þessu þótt það sé komið úr höndum þingsins.