144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[17:06]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú þingsályktunartillaga sem hv. þm. Árni Páll Árnason flytur hér er um margt merkileg. Fyrirsögn hennar er kannski merkilegust af öllu, þar sem hann og flokkur hans er nýkominn úr ríkisstjórn, að það þurfi bráðaaðgerðir í byggðamálum og atvinnumálum. Þetta með bráðaaðgerðina finnst mér einstaklega fyndið og ég ætla kannski að varpa fram þeirri spurningu: Var ekki ástæða til að hafa fyrirsögnina aðra? Hún verður svo fyndin með þessum hætti, verður fyrst og fremst sjálfsásökun.

Annað sem ég vildi sagt hafa er það að allar ráðstafanir í byggðamálum síðustu 50 árin hafa verið með þeim hætti að þær hafa engu skilað. Það eina sem skiptir máli er það að hér verði blómlegt atvinnulíf, ekki bara á sumum stöðum á landinu heldur alls staðar. Og hér hefur orðið ákveðin atvinnuþróun, framleiðnibreytingar sem hafa raskað byggð og atvinnu þannig að fólk hefur flutt í þéttbýli.

Uppbygging framhaldsskóla hefur fyrst og fremst leitt til þess að fólk hefur flutt af landsbyggðinni. Það hefur orðið spekileki af landsbyggð til höfuðborgarsvæðis. Þegar vegur var lagður í austur frá Reykjavík og kallaður Austurvegur, austur í Árnessýslu og Rangárvallasýslu, varð hann í raun Vesturvegur. Íbúar á þessum svæðum fóru til Reykjavíkur að versla en þetta leiddi ekki til aukningar á verslun í heimabyggð. Þannig að margar aðgerðir hafa nú orðið ansi öfugsnúnar.

Ég hef lokið máli mínu að sinni, virðulegi forseti.