144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[17:08]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér færi á að koma hér í andsvar og svara þessum spurningum.

Nei, heitið bráðaaðgerð í byggðamálum felur ekki í sér sjálfsásökun í ljósi ríkisstjórnarsetu okkar. Fimm af þessum ellefu tilgreindu aðgerðum fela í sér að vinda ofan af öfugþróuninni sem ný ríkisstjórn hefur staðið fyrir í byggðamálum frá því að hún tók við.

Í annan stað eru nokkrar hugmyndir þarna sem eru útvíkkun á hugmyndum sem við komum á eins og því að breyta fyrirkomulagi sérstaka veiðigjaldsins, útvíkka fyrirkomulag jöfnunar flutningskostnaðar sem við komum á; þó að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafi talað um það í áratugi að koma þyrfti því á þá vorum það við sem komum því á. Með sama hætti viljum við efna fyrirheitið um alvöru jöfnun raforkukostnaðar.

Síðan fáum við stundum góðar hugmyndir þó að við séum komin í stjórnarandstöðu. Þess sér líka stað að við útfærum og þróum frekar hugmyndir sem við höfum áður unnið með.

Ég vil hins vegar koma hér vörnum fyrir byggðastefnuna vegna þess að ég tel að það sé grundvallaratriði fyrir íslenska þjóð að tryggja jafnræði út frá búsetu og það skipti jafn miklu máli að mæta fólki sem býr við erfiðar félagslegar aðstæður vegna ólíkrar búsetu eins og öllum öðrum sem búa við misgóðar aðstæður. Við jafnaðarmenn leggjum þess vegna mikla áherslu á byggðastefnu, enda er ekki hægt að vera jafnaðarmaður nema berjast líka gegn því misrétti í aðstöðu sem felst í ólíkum aðgangi að afkomuöryggi og félagslegri þjónustu eftir búsetu.