144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[17:12]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég nefna að þrátt fyrir að við höfum verið í ríkisstjórn á einstökum samdráttartímum í Íslandssögunni tókst okkur að finna aukið fé jafnt í sóknaráætlanir landshluta, í jöfnun flutningskostnaðar og í jöfnun húshitunarkostnaðar. Það er einstakt afrek og merkilegt að sjá að þar er ólíku saman að jafna og svo ferilskrá flokks hv. þingmanns, sem gefur landsbyggðinni langt nef í öllum ákvörðunum í fjárlagafrumvarpinu, það er sama hvar borið er niður.

Síðan sjáum við þessa ríkisstjórn halda áfram með sveltistefnu gagnvart velferðarþjónustu á landsbyggðinni. Það er verið að draga saman í rekstri Vinnumálastofnunar á Húsavík og í Vestmannaeyjum. Það er stöðugt verið að halda velferðarþjónustunni við hungurmörk vítt og breitt um landið.

Ég held að það sé alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það er ekkert sjálfstætt markmið að halda hverju einasta býli í byggð sem nefnt er í Landnámu. Það er ekki þannig að það sé mögulegt heldur að tryggja viðgang allra sveitarfélaga sem hafa orðið til við ólíka atvinnuhætti á ólíkum tímum. Það er enginn að fara fram á það. Það er bara verið að fara fram á það að tryggja jafnræði í aðgangi að þjónustu sem á að vera hægt að veita um allt land og er samfélagslega hagkvæmt að veita um allt land. Það er gott fyrir ferðaþjónustu, atvinnuþróun almennt séð og fyrir lífsgæði allra Íslendinga að háhraðatenging sé góð og mikil um allt land. Það er gott með sama hætti að raforkutenging sé góð um allt land. Það er líka gott að tryggja jöfnun flutningskostnaðar þannig að sambærileg störf leiti ekki endilega öll á höfuðborgarsvæðið og möguleiki sé fyrir fyrirtæki að starfa úti í hinum dreifðu byggðum.

Að síðustu: Það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir að búa við öryggi. Þegar ríkisstjórnin kroppar, eins og núna, í hjúkrunarfræðinginn á Borgarfirði eystra spyr maður: Af hverju má ekki vera einn hjúkrunarfræðingur á Borgarfirði eystra þegar heiðin er ófær á veturna? Af hverju (Forseti hringir.) má ekki veita fólki það öryggi í sinni lífsafkomu og í sinni velferð?