144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[17:14]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa með þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu lagt fram öfluga og raunhæfa áætlun til varnar byggðum landsins. Með henni viljum við leggja okkar af mörkum til umræðu og aðgerða í byggðamálum sem við teljum að séu um þessar mundir í alvarlegri stöðu — það alvarlegri stöðu að það kalli á tafarlausan stuðning við atvinnuþróun, menntun, velferðarþjónustu og uppbyggingu innviða.

Eins og hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, rakti hér ítarlega í ræðu sinni þá leggjum við til ellefu raunhæfar en aðkallandi aðgerðir sem hafa það meginmarkmið að jafna tækifæri landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um landið allt. Þetta eru allt aðgerðir sem ríma við þá stefnumótandi byggðaáætlun sem Alþingi samþykkti samhljóða á síðasta löggjafarþingi, aðgerðir sem koma heim og saman við ýmis markmið og stefnu undanfarinna byggða- og sóknaráætlana sem hafa þó ekki náð nógu vel fram að ganga. Við teljum að það megi ekki dragast lengur að grípa til bráðaaðgerða til að bregðast við alvarlegu ástandi víða. Tíminn er auðvitað dýrmætur fyrir byggðir í vanda og vörn.

Við höfum árum saman horft upp á alvarlega byggðaröskun byggðarlaga sem með réttum aðgerðum gætu sannarlega snúið vörn í sókn og náð viðspyrnu. Þetta eru byggðarlög sem kljást við fámenni, dreifbýli, lágt menntunarstig og hækkandi meðalaldur, erfiðar samgöngur og einhæft atvinnulíf þar sem störfum fer fækkandi. Engu að síður eiga þessi byggðarlög viðreisnarvon og gætu fullvel bjargað sér ef þau nytu þeirrar innviðauppbyggingar sem nauðsynleg er til atvinnu- og búsetuþróunar. Þá á ég einkum við góðar samgöngur, örugga raforku og traust fjarskipti á borð við símsamband og internetaðgengi. Ekki síst vil ég líka nefna aðgengi að auðlindum til lands og sjávar.

Íbúar þessara svæða kæra sig ekki um tímabundnar skyndilausnir sem stýfðar eru úr hnefa. Það er gömul pólitík. Byggðarlögin sem við erum að tala um hafa í rauninni ekkert að gera við plástra á svöðusár sín. Hið eina sem þessar byggðir fara fram á er að fá að bjarga sér sjálfar, að þær njóti auðlinda sinna, landgæða og mannauðs og fái þannig að byggja upp vænleg búsetu- og atvinnuskilyrði á sjálfbærum forsendum.

Það var mikill skaði fyrir byggðir landsins þegar fjárfestingaráætlun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var ýtt út af borðinu af þeirri ríkisstjórn sem nú situr, hverrar fulltrúi kom hér í ræðustól áðan og taldi bráðfyndið að tala um sérstakar aðgerðir núna. Það segir kannski sitt um hugarfarið og skeytingarleysið. Með því að ýta þessari fjárfestingaráætlun út af borðinu var ýtt af borðinu þeirri styrkingu innviða og eflingu byggðaþróunar sem sú áætlun gerði ráð fyrir. Sérstaklega var átakanlegt að samgönguátak þeirrar áætlunar skyldi fara forgörðum og þess vegna leggjum við til að fjárframlög til samgöngumála sem voru skorin niður við samþykkt fjárlaga 2014 verði aukin á ný til samræmis við fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar um vega- og jarðgangagerð svo hægt sé að standa t.d. við samninga um eflingu almenningsamgangna milli ríkis og landshlutasamtaka.

Góðar samgöngur eru grundvöllur fyrir eðlilegri atvinnuþróun í landinu. Það eru líka örugg fjarskipti og raforka. Við leggjum það til að fyrir þingið verði lögð tímasett og kostnaðargreind áætlun um uppbyggingu háhraðatenginga og hringtengingu ljósleiðara um landið allt því að hnökralaust internetsamband, eins og hér hefur komið fram, er lykilatriði fyrir uppbyggingu atvinnulífs og t.d. rafrænnar stjórnsýslu og eykur að sjálfsögðu og tryggir jafnræði íbúa varðandi opinbera þjónustu og aðgengi að afþreyingu, menningu, menntun, að ekki sé talað um atvinnusókn og atvinnuþátttöku.

Standi þessar þrjár meginstoðir, samgöngur, raforka og fjarskipti, sterkar í hverjum landshluta eru þær trygging fyrir vænlegum búsetuskilyrðum. Á öðrum áratug 21. aldar hlýtur það að teljast sjálfsagður hlutur hvar á landinu sem er að hafa þessa megininnviði í lagi, ekki síst þar sem stefnt er að aukinni samþættingu þjónustu og sameiningu stofnana og sveitarfélaga.

Húshitunar- og flutningskostnaður er annar íþyngjandi þáttur sem hér hefur komið til tals og veldur umtalsverðri mismunun milli landsvæða. Húshitunarkostnaður á köldum svæðum fer margfalt yfir það sem tíðkast á hlýrri svæðum landsins sem njóta hitaveitu. Það er sjálfsagt jafnréttismál að jafna þennan mun og löngu tímabært að stíga fastar á fjöl varðandi það en gert hefur verið til þessa. Við leggjum til að jöfnunargjald verði lagt á alla notendur raforku, þar á meðal stóriðju og aðra stórnotendur. Þá teljum við mikilvægt að efla það kerfi sem er nú þegar til staðar til jöfnunar flutningskostnaðar á þann veg að það taki einnig til verslunar.

Þegar ljóst er að tiltekin svæði sitja á hakanum í öllu því tilliti sem nú hefur verið nefnt er það sjálfsögð og eðlileg krafa til upplýstra stjórnmálamanna að þeir leiðrétti þá skekkju. Við erum saman í þessu þjóðfélagi, eigum ríkissjóðinn saman og landshlutarnir eiga að sitja við sama borð varðandi tækifæri til uppbyggingar og þróunar.

Að því miðar sú þingsályktunartillaga sem nú liggur fyrir. Við viljum að nú þegar verði aukið fjármagn veitt til sóknaráætlana landshlutanna sem gleymdust því miður í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi en áður hafði núverandi ríkisstjórn skorið þær svo mikið niður að fjármagni til að það má segja að þær hafi fengið náðarhöggið. Við viljum höfða til þingheims að bæta ráð sitt að þessu leyti og að nú þegar verði hafist handa við að framfylgja þeirri vinnu sem hafin var við sóknaráætlanir landshluta og að byggt verði á þeirri aðferðafræði sem þar var lögð til grundvallar og fjárheimildir sem nú eru vistaðar í ólíkum ráðuneytum verði sameinaðar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að rekja lið fyrir lið tillögurnar sem hv. þm. Árni Páll Árnason fór ágætlega yfir hér áðan. Mig langar þó áður en ég lýk máli mínu að hnykkja aðeins á vilja okkar til þess að sveitarfélögin eigi þess kost að njóta tekna af vaxandi ferðamannastraumi víða um land og að ráðstafanir verði gerðar til að svo geti orðið þannig að þau eigi þess kost að byggja upp álitleg ferðamannasvæði innan sinna marka og taka þátt í því með ferðaþjónustuaðilum að gera svæði sín að álitlegum valkosti fyrir ferðamenn.

Ferðaþjónustan hefur verið hraðvaxandi undanfarin ár og vöxtur hennar er jafnvel orðinn of mikill fyrir ákveðin landsvæði meðan önnur svæði gætu sem best tekið við því sem út af stendur. Þess vegna er æskilegt í öllu tilliti að dreifa sem mest ferðamannastraumnum því þannig verður ágangurinn viðráðanlegri og fleiri njóta góðs af.

Síðast en ekki síst gerum við þá kröfu að nægar fjárveitingar séu tryggðar í fjárlögum til að bæta aðgengi að menntun og tryggja öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu um allt land. Það þarf ekki að hafa mörg orð um mikilvægi þess að grunnþjónusta í mennta- og heilbrigðiskerfinu sé aðgengileg í heimabyggð. Það ætti líka að vera sjálfsagt mál að heimamenn hafi sjálfir mest um það að segja og geti jafnframt haft áhrif á það hvernig þjónustan er veitt.

Virðulegi forseti. Þetta eru metnaðarfullar tillögur sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa hér lagt fram, raunhæfar tillögur í einu brýnasta málinu sem samfélag okkar stendur frammi fyrir um þessar mundir, máli sem segja má að sé orðið að vanrækslusynd gagnvart íbúum utan höfuðborgarsvæðisins, þ.e. að gera byggðum landsins kleift að þrífast og dafna eins og þær hafa í rauninni burði til ef þær fengju bara verkfærin sem þarf, innviðina sem halda samfélögum þeirra uppi. Við búum í harðbýlu og dreifbýlu landi en við erum ein þjóð, eitt samfélag. Gleymum því ekki.