144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[17:57]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta athyglisverð umræða vegna þess að ég hef heimsótt margar af þessum heilbrigðisstofnunum og rætt við bæjaryfirvöld á Akureyri. Mér er það minnisstætt að eftir heimsókn á Blönduós kom í ljós að það kerfi er algjörlega ótengt kerfinu á Akureyri. Með sama hætti er kerfið á Húsavík alveg ótengt kerfinu á Akureyri en hefur hins vegar ýmsar þjónustuskyldur norður um.

Mér er það algjörlega hulin ráðgáta hvaða samlegð á að verða í þessu fólgin nema að hugsunin sé sú að læknarnir á Akureyri, sem nú þegar eru of fáir, eigi að sinna í ríkari mæli verkefnum sem til falla einhvers staðar annars staðar. Ég spyr þá: Hlýtur ekki að koma á móti kostnaðarauki í aksturskostnaði? Það er enginn sem mun sætta sig við það að láta skáka sér út um allar koppagrundir án þess að fá fyrir það borgað eða fá einhverja umbun fyrir það. Þegar við sjáum síðan þessa þróun, hvernig hjúkrunarfræðingar breytast í hlutahjúkrunarfræðinga á Vopnafirði, á Borgarfirði eystra, er þetta eiginlega eins og viðvörunarljós.

Mig langar að spyrja þingmanninn: Hefur hann séð einhverja áætlun, einhverja samlegð af tengingu Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, Heilsugæslunnar á Akureyri, heilbrigðisstofnana Eyjafjarðarsvæðisins, Blönduóss og Sauðárkróks með sannfærandi hætti? Ég hef ekki séð það.