144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[18:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég er stundum stoltur af því að vera í flokki sem lætur sig hornsteina varða og eltir ekki tískubólur. Það hefur komið fram sú skoðun, að minnsta kosti af hálfu eins hv. stjórnarþingmanns sem tekið hefur til máls um það þingmál sem hér er flutt, að honum finnst það jafnvel allt að því fyndið. Honum fannst það skrýtið að menn skyldu vera að leggja fram frumvarp sem fæli í sér tillögur að bráðaaðgerðum í byggðamálum.

Í mínum huga varðar þetta jafnræði og ég vil vera í stjórnmálaflokki sem berst fyrir jafnræði. Ég tel reyndar að byggðamálin eigi alltaf að nálgast undir því sjónarhorni. Áður en ég fer lengra í mína ræðu þá tel ég að við eigum öll að berjast fyrir breytingum sem geta aukið jafnræði með Íslendingum. Eitt af því sem ég er algerlega sannfærður um að er, sennilega ekki hægt að flokka það undir bráðaaðgerð, eitt það mikilvægasta sem varðar jafnræði íbúa landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborgarsvæðinu, ekki síst barna og unglinga sem þar byggja, er að stækka sveitarfélögin. Ég held að það sé óhjákvæmilegt, ef menn ætla sér að reyna að ná því marki að uppvaxandi kynslóðir á landsbyggðinni, sem við viljum að njóti sömu menntatækifæra og gæða og hér í þéttbýliskjörnunum, að fara þá leið að stækka sveitarfélögin; og ýmislegt annað sem tengist velferð barna er mjög erfitt að uppfylla nema með því. Það er hins vegar langtímastrategía.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir, og gerir ráð fyrir því að ríkisstjórnin ráðist í 11 tilgreindar aðgerðir, varðar hins vegar vanda sem er tiltölulega bráður. Hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason flutti hér innlifaða tölu áðan, talaði af tærum þrótti landsbyggðarmanns sem hefur skynjað þetta á sínu skinni; og ég þakka honum fyrir þá góðu ræðu. Hins vegar var það þannig að hv. þingmaður velti því eigi að síður fyrir sér um leið og hann af örlæti síns hjarta og sanngirni fór nokkuð jákvæðum orðum um tillöguna fyrir sér — og ég sá að honum þótti það hálfóþægilegt að vera upphátt að lofa tillögu sem í reynd er um bráðaaðgerðir, vegna þess að ég gat ekki betur ráðið af máli hv. þingmanns en að þó hann skynji vel á eigin skinni vanda landsbyggðarinnar þá kannski finnst honum fullmikið að krefjast þess að ráðist verði í bráðaaðgerðir.

Hv. þingmaður kom hér með reynslusögu sem mér þótti merkileg. Hann greindi frá því að hann hefði verið kennari í 14 ár og eins og ég skildi mál hans hefur á hverju einasta ári fækkað í skólanum þar sem hann kennir um 10 nemendur á ári. Frá árinu 2000–2014 hefur fjöldinn í skólunum farið úr 435 niður í 300. Mundi maður ekki segja að andspænis svo bráðri fækkun þyrfti að grípa til bráðaaðgerða?

Hv. þm. Oddný Harðardóttir gerði hér að umræðuefni hvernig menntakerfið, sem er síðasti liðurinn í þessari tillögu, er leikið. Með þeim niðurskurði, eða eigum við að segja talnaleikfimi sem felur niðurskurð í þessu fjárlagafrumvarpi, er verið að skerða möguleika fjölda nemenda til að sækja framhaldsskóla sem samsvarar þeim framhaldsskóla sem hún kenndi við og veitti forstöðu um árabil á Suðurnesjum. Ef maður skyggnist dýpra í þessar tölur og skoðar hvar þetta kemur helst niður þá sjáum við að það er helst á landsbyggðinni. Það er þar sem þessum námsmannaígildum fækkar mest. Ég get talið upp skóla eins og Laugar í Reykjadal, í næsta nágrenni við hv. þingmann, og fleiri slíka skóla. Ef við færum vestur um, til dæmis Menntaskólinn á Tröllaskaga, þessir tveir skólar koma einna verst út. Þegar maður horfir á það að þarna er um skóla að ræða sem eru tiltölulega smáir fyrir þá er ég alveg viss um að þeir sem kenna við þessa skóla mundu fallast á að þörf væri á að ráðast í einhvers konar bráðaaðgerðir.

Hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason sagði líka að við þéttbýlisfautarnir, sem hann orðaði að vísu ekki svo, yrðum að horfast í augu við það að ef við töluðum um að reyna að breyta laginu landsbyggðinni í vil þá mundum við þurfa að leggja til þess fjármagn og kostnað. Herra trúr, það þarf ekki að segja okkur í Samfylkingunni það. Við fórum með byggðamálin um árabil og hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason, sem er glöggur um sögu og hefur áhuga á sögulegum fróðleik, ætti til dæmis að skoða byggðaþróun síðustu 60 ára. Þá kemst hann að því að á einungis einu ári, samkvæmt yfirliti Byggðastofnunar, snerist þróunin við. Það fjölgaði á landsbyggðinni á einu ári og það var árið 2010 þegar fjölgaði þar á milli 60 og 70. Ég ætla ekki að rifja það upp fyrir hv. þingmanni að þá var byggðaráðherra úr 101, en það sem ég ætla að rifja upp fyrir hv. þingmanni er að menn réðust meðvitað í aðgerðir sem áttu að snúa við spekileka af landsbyggðinni með því að efla stoðir og reisa nýjar undirstofnanir, undirfyrirtæki, undirsamtök sem beinlínis kröfðust þess að menn settu á stofn nýjar stöður sem voru fyrir fólk sem hafði æðri menntun, var með háskólagráðu. Þetta tókst. Þetta var gert á þremur stöðum, á Vestfjörðum, á Norðurlandi vestra og á Austfjörðum. Þetta er eina árið sem þróuninni hefur verið snúið við. Ég geri mér algerlega grein fyrir því, sem hv. þingmaður sagði hér áðan, að það kostar peninga að ráðast í aðgerðir af þessu tagi.

Ég vil svo, eins og allir aðrir sem hér hafa talað, benda á það sem kannski sker í augu að eitt af því sem sú ríkisstjórn sem nú situr hefur af vangæsku sinni gert og hugsunarleysi frekar en vondum vilja er að drepa í dróma það frumkvæði sem landsbyggðinni var fært með sóknaráætlunum. Hv. þm. Oddný Harðardóttir fór rækilega yfir það áðan hvernig fyrri ríkisstjórn, með þeim framlögum sem komu frá sveitarfélögunum, bjó til nýtt fé upp á 650 millj. kr. þar sem 450 millj. kr. komu frá ríkisstjórninni til að ýta undir frumkvæði í héraði. Þetta tókst með þeim ágætum að þegar ríkisstjórnin — eins og hendir sumar ungæðingslegar ríkisstjórnir þegar þær ná völdum þá byrja þær á því að rífa allt niður sem fyrri ríkisstjórn gerði — hófst handa um að tæta þetta sundur. Ástæðan fyrir því að hæstv. ríkisstjórn nam staðar í því verki var það að landsbyggðin, án tillits til flokkspólitískra banda, reis til varnar þessu frumkvæði vegna þess að þetta er mikilvægasta valddreifingarverkefni sem ríkisstjórnir hafa ráðist í ákaflega lengi. Það leiddi til þess, eftir mikið japl og jaml og fuður í þingsölum, að þá fengust 100 millj. kr. í það. En hvernig er það í dag? 15 millj. kr. Og hvað gerðist?

Af því að hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason er innsti koppur í búri Framsóknar, sem hefur nú með höndum byggðamálin, menningarsamningana, vaxtarsamningana og sóknaráætlanirnar, gæti hann kannski sagt okkur hvað það var sem gerðist. Allt í einu, þegar ríkisstjórnin og hæstv. byggðaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson ætlaði að gera reka að einhvers konar upprisu þessara verkefna, fór allt í hnút. Ég rifjaði upp fyrir hv. þingmanni að hæstv. byggðaráðherra kom á forsíðu Fréttablaðsins 29. ágúst og greindi frá því að hann væri að beita sér fyrir því að renna menningarsamningunum, vaxtasamningum og sóknaráætlunum saman í einn farveg og það átti að leiða til þess að það yrði 650 millj. kr. pottur. Ég gladdist yfir þessu. Það eina sem ég undraðist var það að menningarmál skyldu að þessu leytinu vera komin undir landbúnaðarmál en maður trúir öllu upp á Framsóknarflokkinn, er það ekki, hv. þingmaður? Síðan hefur ekkert gerst. Það var kallaður saman fundur, hinn afsetti stýrihópur yfir sóknaráætlunum var kallaður saman aftur, menn voru kallaðir af öllum landshlutum og þeim sagt að þetta væri fram undan. En hvað gerðist? Einhvers konar misklíð innan ríkisstjórnarinnar, tog milli hæstv. menntamálaráðherra og byggðaráðherra, í reynd hefur það sett þetta mál allt í uppnám, allt í hnút.

Þetta er til marks um að það er fullkomlega eðlilegt að þingheimur staldri við og það er sérstaklega eðlilegt að flokkur eins og Samfylkingin leggi fram mál af þessu tagi sem varðar jafna stöðu landsbyggðarinnar, varðar og snýr að jafnræði landsbyggðarinnar því að það er þess vegna sem flokkur eins og okkar á tilverugrundvöll. Þetta er okkar framlag inn í stjórnmálin og lýðræðið. Þetta er sá vinkill sem við tökum á byggðamálin.