144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[18:31]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka hana og fara yfir nokkur atriði sem hér hafa komið upp. Nokkur umræða hefur orðið um heiti tillögunnar, bráðaaðgerðir. Ég ætla að viðurkenna að við veltum því dálítið fyrir okkur. Við veltum meðal annars fyrir okkur hvort þarna ætti kannski frekar að standa mikilvægar aðgerðir. Fyrir því voru þau rök að við ættum ekki að vera að mála þá mynd að það væri slíkt neyðarástand að kallaði á bráðaaðgerðir. Þegar við horfum hins vegar á hversu veikir innviðir landsbyggðanna eru finnst mér heitið „bráðaaðgerðir“ eiga við. Það var yfirveguð ákvörðun.

Mig langar að taka tvö dæmi. Annað þeirra hefur þegar verið nefnt í umræðunni. Hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason nefndi áðan staðreynd um þróun í nemendafjöldanum í skólanum hans á Húsavík — Húsavík er ekki álitin brothætt byggð — hvernig fjöldinn hefur farið á 14 árum úr 435 í 300. Við getum líka séð reynslusögu Djúpavogs á síðustu mánuðum og borið hana saman við þróunina á Raufarhöfn sem hv. þingmaður nefndi áðan, með íbúafjölda áður á fimmta hundrað sem er kominn núna í rétt rúmlega hundrað vegna þess að kvótinn fór. Sama ógn vofir yfir Djúpavogi. Sama ógn getur vofað yfir stöðum sem líta vel út í dag.

Mig langar að taka dæmi af Þórshöfn. Þar er mjög gott ástand, glæsilegt fyrirtæki sem rekur öfluga útgerð, en vegna þess að raforkuflutningarnir eru svo lélegir þarf að nota olíu til að keyra vinnsluna. Það er útgjaldaauki upp á líklega 100 milljónir á ári. Við erum algjörlega berskjölduð gagnvart því að viðkomandi útgerðarfyrirtæki ákveði einn góðan veðurdag að þetta sé kostnaður sem það vill ekki standa undir. Samanburðurinn milli Vopnafjarðar og Þórshafnar er augljós hvað þetta varðar. Það er þess vegna sem okkur fannst heitið bráðaaðgerðir eiga við. Við erum algjörlega berskjölduð gagnvart sumum af þessum veikleikum í samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja í hinum dreifðu byggðum.

Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason sagði áðan, við eltum skattpeningana að sumu leyti. Fólk eltir líka góða félagslega þjónustu. Víða um land er það þannig að ef fólk lendir í því að eignast barn sem á við einhverja námsörðugleika að stríða á það ekki valkost nema að flytja. Ef fólk lendir í því að eignast barn sem þarf minni háttar heilbrigðisaðstoð þarf það að flytja. Það er óásættanlegt.

Þá er hugsunin þessi: Viljum við almennt taka þá afstöðu að lækka skattprósentu úti á landi vegna þess að þjónustan sé minni eða viljum við setja viðmið um einhverja lágmarksþjónustu sem verði að vera fyrir hendi úti um land?

Ég ætla bara að segja alveg hreinskilnislega að ég tel að við höfum í öllum flokkum gengið of langt í því á undanförnum áratugum að leggja mælikvarða hrárrar arðsemi á velferðarþjónustu í dreifðum byggðum. Við getum ekki búið í góðu samfélagi ef við viðurkennum ekki að stundum þarf að kosta einhverju til til að tryggja lágmarksöryggi og viðbúnað. Það hefur síðan leitt okkur aftur í þá þróun að við sameinum einingarnar og afleiðingin af sameiningu eininganna er nákvæmlega ekki að styrkja jaðarbyggðirnar, ekki að styrkja jaðarþjónustuna, heldur þvert á móti að draga þjónustuna alla að hinum nýja kjarna sem þá verður til. Það er veikleikinn í hugmyndafræðinni að baki sameiningu þessara stofnana að það er ekki raunverulega verið að styðja við hinar dreifðu byggðir og jaðarbyggðirnar.

Það er nefnilega mjög mikilvægt að hér sé ekki um ræða sporslu eða dúsu heldur er þetta grundvallaratriði um réttindi. Þá komum við aftur að störfunum. Þar ætla ég að leyfa mér að vera á svolítið annarri línu en hv. þingmenn sem hér hafa sagt að það sé kannski eðlilegt að flytja stofnanir eða höfuðstöðvar stofnana út á land. Ég held að það sé óhjákvæmilega ákveðinn hluti stjórnsýslu sem hljóti alltaf að vera í höfuðborg, að undan því verði aldrei vikist og sogið verði alltaf í átt að því að það sé hagkvæmt að hafa höfuðborg. Ég heyri þetta líka frá vinum mínum vítt og breitt um landið, þeim finnst eðlilegt að hafa höfuðborg og að þangað þurfi að sækja ákveðna þjónustu.

Það er samt hægt að velja ýmis störf og hafa þau án staðsetningar. Við getum nefnt ágæt dæmi úr utanríkisráðherratíð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þegar vítt og breitt um landið var byggð upp þýðingarþjónusta vegna umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Þeirri starfsemi var ekki fundinn staður á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er starfsemi sem er eðli sínu samkvæmt ekki háð tiltekinni staðsetningu og þá var fólki gefið frelsi um það hvar það byggi ef það gegndi þessum störfum. Það er hægt að fara þá leið við fjöldamarga starfsþætti.

Það eru líka ákveðnir þættir stofnana sem geta verið úti á landi. Það er til dæmis nýbúið að flytja eftirlit með fiskeldi frá Vestfjörðum til Reykjavíkur svo við tökum dæmi um verkhluta sem var úti á landi hjá Fiskistofu.

Hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason sagði að ekkert mundi heyrast ef Fiskistofa yrði flutt í Garðabæ. Það heyrðist mikið þegar hún var flutt í Hafnarfjörð. Það heyrðist mikið þegar Landmælingar voru fluttar upp á Akranes jafnvel þótt ekki sé lengri vegalengd. Ástæðan er ósköp einfaldlega sú að ráðherrar eiga ekki að mínu viti að vera í kalífadæmi, stjórna stofnunum að eigin geðþótta og flytja fólk til. Það á að vera einhver meginregla um uppbyggingu lykilstofnana sem fylgi höfuðborg, síðan sé almenn stefnumörkun um störf án staðsetningar og við hvetjum til þess að þau verði til.

Lykilatriðið er hins vegar að verðmætustu störfin sem verið er að fækka núna eru þjónustustörf í velferðarþjónustu í heimabyggð. Af hverju eru þau verðmætust? Það eru kvennastörfin. Öll þessi dæmi sem ég er búinn að taka af hjúkrunarfræðingum úti um land eru kvennastörf. Við vitum það af reynslu í byggðaþróun að ef konur finna sér ekki störf flytur fjölskyldan. Þetta er viðkvæmasti þátturinn í uppbyggingu starfa úti um land.

Mér finnst síðan gott að fara yfir þetta mál almennt. Ég minni á forgangsröðun ríkisstjórnarinnar núna þar sem svigrúmið í ríkisrekstrinum er notað til að létta álögum af best reknu fyrirtækjunum með mestu arðsemina og hæst launaða fólkinu. Á móti er allri velferðarþjónustu haldið í spennigreipum niðurskurðar og þetta leiðir auðvitað til þess að jaðarbyggðirnar og landsbyggðirnar fara verst út úr þessu, þeim mun verr sem byggðirnar eru fjær miðjunni.

Mig langar bara að taka dæmi. Við sjáum samgöngumálin þar sem þessi ríkisstjórn hefur enga forgangsröðun um að fylgja eftir metnaðarfullri áætlun síðustu ríkisstjórnar.

Við sjáum uppbygginguna á ferðamannastöðum. Það er nákvæmlega sama hvert maður fer um landið, það sem stendur upp úr öllu sveitarstjórnarfólki er valdið til þess að geta byggt upp staðina í heimabyggð.

Ég er búinn að tala um heilbrigðisstofnanirnar en það er líka hægt að tala um lokunina á starfsstöðvum Vinnumálastofnunar á Húsavík og í Vestmannaeyjum. Breytingin núna í fjárlagafrumvarpinu með framhaldsskólana er mjög alvarleg tíðindi. Ef við fækkum um nemendaígildi upp á 916 nemendur er það ekkert smáræði.

Hér hefur komið fram í umræðunni að litlu skólarnir koma verst út úr þessu, svo sem menntaskólinn í Fjallabyggð. Það er hægt að taka dæmi af Laugum þar sem ég veit af mínus 5 milljónum sem er tap fyrir þann litla skóla. Við höfum þvert á móti á síðustu árum stært okkur af því að við höfum náð að byggja upp fjölbreytt nám í heimabyggð og farið nýjar leiðir í skólaþróun. Menntaskólinn í Fjallabyggð er mjög gott dæmi um það. Annað gott dæmi er framhaldsskólinn í Grundarfirði sem veitir mjög spennandi þjónustu.

Höfn í Hornafirði er enn eitt dæmið. Það er dapurlegt að sjá tillögur ríkisstjórnarinnar miða að því að grafa undan þessu merkilega skólaþróunarstarfi sem á sér stað vítt og breitt um landið.

Eitt dæmi enn er peningarnir sem við gátum búið til af sóknaráætlun sem gerði okkur kleift að búa til dreifnám á Blönduósi þannig að nemendur þar þyrftu ekki að fara úr heimabyggð. Heill árangur gat skyndilega stundað framhaldsskólanám í heimabyggð. Svona mætti lengi telja. Allir þessir þættir skipta máli.

Hér nefndi hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir líka Háskólann á Akureyri. Hann er kristaltærasta dæmið af þeim öllum. Yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem útskrifast úr Háskólanum á Akureyri finnur sér starf og búsetu í hinum dreifðu byggðum. Yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem ljúka námi í Háskóla Íslands finnur sér starf og búsetu í Reykjavík. Það þarf ekki frekari vitnanna við um mikilvægi fjölbreyttrar menntunar í heimabyggð. Það er sorglegt að sjá þessa ríkisstjórn sem í orði kveðnu þykist bera hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti ganga fram í aðför að skólunum (Forseti hringir.) í hinum dreifðu byggðum.