144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu.

20. mál
[18:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þingmaður vera svolítinn óheppinn með tímasetningar. Ef hann ber framgang þessa máls fyrir brjósti og vill í reynd fá úr þessu skorið þá hefði ég í hans sporum ekki komið fram með tillögu á þeim tímamótum sem Evrópa stendur á núna. Ég held að það sé öllum ljóst hvað sem mönnum finnst um NATO að þrjár vinaþjóðir okkar, sem við á sínum tíma tókum þátt í að rétta hjálparhönd þegar þær endurheimtu fullveldi sitt, þ.e. Eystrasaltsþjóðirnar, eiga tilvist sína í framtíðinni undir Atlantshafsbandalaginu.

Ég fullyrði það að ef menn skoða til að mynda ástandið í Úkraínu, bera saman stöðu Úkraínu við þessar þrjár þjóðir þá ræður það eitt algerlega úrslitum varðandi hugsanleg afdrif í framtíðinni ef í odda skerst síðar að Eystrasaltsþjóðirnar njóta 5. gr. sáttmála Atlantshafsbandalagsins. Það þýðir að ef lagt verður til atlögu með einhverjum hætti við þær þá koma aðrar þjóðir þeim til varnar. Þetta held ég að öllum sé ljóst og jafnvel hv. flutningsmanni ef hann skoðar staðreyndir og hjarta sitt mjög grannt. Þess vegna segi ég það að ég hefði í hans sporum valið einhvern annan tíma til að leggja þetta fram.

Í annan stað spyr ég hinn vígreifa baráttumann sem er harðsnúinn andstæðingur NATO: Mun honum líða eitthvað betur innan NATO ef þjóðin er búin að samþykkja það í þjóðaratkvæðagreiðslu? Af hverju heldur hann ekki bara uppteknum hætti og berst gegn NATO? Ætlar hann að hætta því ef þjóðin lýsir því yfir að hún vilji vera innan bandalagsins?