144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu.

20. mál
[18:54]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mun að sjálfsögðu eins og allir Íslendingar hlíta þeirri niðurstöðu sem þar fæst, en það er rétt hjá hv. þingmanni að ég mundi ekki hætta mótmælum mínum og andófi gegn þessu hernaðarbandalagi.

Ég er ekki að velja rangan tíma, ég er að velja mjög góðan tíma. Ég er að velja tíma þegar Evrópa stendur á barmi nýs kalds stríðs. Ég er búinn að skrifa um þetta greinar í blöð og ég tók afstöðu í samræmi við þetta þegar Evrópuráðið vildi úthýsa Rússum frá Evrópuráðinu og þá frá Evrópudómstólnum líka. Viti menn, þá komu um leið upp tillögur um að vísa öðrum þjóðum burtu sem fangelsa mannréttindafólk, t.d. Tyrkjum, og einhverjir vildu að Ísrael fengi ekki að sitja fundi. Allt er þetta umdeilanlegt. Ég er einfaldlega sjálfur þeirrar skoðunar að á slíkum vettvangi eigi fólk að tala saman.

Ég er sammála hv. þingmanni varðandi Eystrasaltsþjóðirnar. Þar gerðu Íslendingar nokkuð sem lengi verður minnst, að viðurkenna Eystrasaltsríkin. Hvernig stendur á því að NATO-ríkin gerðu það ekki, Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Þýskaland? Það er gamla samtryggingin sem birtist núna varðandi Krímskaga. Það spyr enginn á þessum nótum: Hver er vilji íbúa á Krím? Þess spyr enginn fullveldi þjóðríkisins sem á þeim tíma var Sovétríkin. Þess vegna þorðu þessar þjóðir ekki að gera það sem Íslendingar gerðu. Við höfum alltaf viðurkennt vilja þjóðanna, fólksins og það er það sem við erum að gera.

Nei, ég er ekki að velja rangan tíma. Ég vil ekki vera í þessu púkki.