144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu.

20. mál
[19:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka það fram að ég er einstaklega glöð yfir því að þetta mál, tillaga til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu, sé komin á dagskrá Alþingis og hv. þm. Ögmundur Jónasson sé búinn að mæla fyrir því.

Þá er ég ekki síður ánægð með að vera meðflutningsmaður á þessu máli. Eins og fram kemur í greinargerð er þetta ekki í fyrsta sinn sem málið er lagt fyrir hér á Alþingi án þess þó að það hafi náð fram að ganga svo að nú er kominn tími til og þó fyrr hefði verið.

Ísland samþykkti 30. mars árið 1949 að gerast stofnaðili að hernaðarbandalaginu NATO. Það eru því rétt rúm 65 ár síðan íslenskir ráðamenn skrifuðu undir inngönguna, reyndar með fyrirvörum um að þrátt fyrir aðildina skyldi aldrei vera hér her á friðartímum og að Ísland mundi aldrei verða aðili að stríði. Þann fyrirvara áréttaði Bjarni Benediktsson, þáverandi utanríkisráðherra, í ræðu sinni við stofnunina.

Síðar átti þó eftir að koma í ljós varðandi fyrra skilyrðið að skilgreiningin „á friðartímum“ reyndist ansi teygjanleg. Seinna skilyrðinu, um að Ísland mundi aldrei verða aðili að stríði, hentu íslenskir ráðamenn sjálfir út um gluggann og skrifuðu upp á hvert stríðið á fætur öðru, Júgóslavía 1999, Afganistan 2001, Írak 2003, Líbía 2012. Þetta eru fjögur stríð á 12 ára tímabili ýmist beint eða óbeint í gegnum NATO-aðildina.

Ákvörðunin um að Ísland gengi í NATO var tekin hér í þessu húsi af meiri hluta þingsins, með samþykkt þingsályktunartillögu. Fyrir utan á Austurvelli var hins vegar mikill fjöldi fólks saman kominn til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, þ.e. að þjóðin sjálf fengi að ráða hvort hún gerðist aðili að hernaðarbandalaginu.

Mótmælum fólksins á Austurvelli var mætt með gríðarlegri hörku og til eru myndbandsupptökur sem sýna hjálmbúna menn koma stormandi út úr þinghúsinu í gegnum táragasský vopnaða kylfum sem þeir beittu á fólkið sem hafði komið saman til að nýta lýðræðislegan rétt sinn til mótmæla.

Í upphafi, þegar NATO var stofnað, voru aðildarríkin 12. Þeim hefur svo fjölgað í tímans rás og eru nú 28. Eins og flestum ætti að vera kunnugt eru Bandaríkin langöflugasta herveldið innan NATO en Frakkland, Spánn, Þýskaland og Bretland, svo að nokkur ríki séu nefnd, hafa þó einnig yfir sterkum herjum að ráða. NATO er því hernaðarbandalag sem inniheldur mörg stærstu herveldi heims. Aðildarríki NATO eru jafnframt mestu vopnaframleiðslulönd veraldar og saman standa þau undir um 70% útgjalda til hermála í heiminum. Þar á bæ eru því aðilar sem hafa gríðarlega hagsmuni af stríðsátökum. Við skulum ekki láta blekkja okkur með einhverju öðru. Bandalagið er tæknisinnað og lætur kostnað ekki hindra sig í að fjárfesta í nýjum og dýrum stríðstólum. Vorið 2008, þegar veröldin stóð á barmi efnahagskreppu, alla vega okkar heimshluti, var haldinn NATO-fundur í Búkarest þar sem einróma var samþykkt ályktun þess efnis að engin ríkisstjórn skyldi, þrátt fyrir kreppu og þrengingar, skera niður fjármagn til hermála. Íslendingar áttu sína fulltrúa á þessum fundi en Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi þingmenn og ráðherrar, fóru til fundarins eins og frægt varð með einkaþotu, með efnahagshrun handan við hornið.

NATO er ekki aðeins hernaðarbandalag sem byggir herveldi sitt á hefðbundnum hátæknivopnum. Það er einnig og ekki síður bandalag sem byggir á kjarnorkuvopnastefnu. Þetta er bandalag sem útilokar ekki beitingu kjarnorkuvopna að fyrra bragði. Þetta er bandalag sem markvisst elur á spennu í heiminum, meðal annars með áformum um uppsetningu gagneldflaugakerfis sem óttast er að geti komið af stað nýju vígbúnaðarkapphlaupi. Og þetta er bandalag sem hefur á síðustu árum gerst sífellt árásargjarnara og blandað sér í stríðsrekstur í fjarlægum löndum.

Lengst af var Ísland fremur óvirkt þátttökuríki í NATO en á síðustu áratugum hefur stefna ýmissa ráðamanna verið sú að auka leynt og ljóst þátttöku okkar. Sú þróun hófst raunar um það leyti sem kalda stríðinu átti að heita lokið. Birtingarmyndir þess hafa verið auknar heræfingar við Ísland, oft með þátttöku borgaralegra stofnana. Ísland er lánað sem vettvangur fyrir orrustuþotur NATO-ríkja í svokallaðri loftrýmisgæslu og svo mætti lengi telja.

Fáránlegasti kaflinn í þeirri sögu er þó vafalítið þáttur íslensku friðargæslunnar í Afganistan. Þrátt fyrir nafnið var í raun um að ræða herdeild sem skipuð var íslenskum mönnum undir íslenskum fána og sem laut öllum sömu lögmálum og hver annar her NATO-ríkja. Það hermennskuævintýri tók skjótan en dapurlegan endi með atburðunum í Kjúklingastræti í Kabúl eins og mörgum ætti að vera í fersku minni.

Það er þó rétt að hrósa tveimur fyrrverandi utanríkisráðherrum, þeim Valgerði Sverrisdóttur og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrir þeirra þátt í að hætta hermennskutilburðum íslensku friðargæslunnar. Styrkur Íslendinga á alþjóðavettvangi liggur ekki í stríðsleikjum heldur þróunaraðstoð og störfum að mannúðarmálum. Í því samhengi er umhugsunarvert að núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur á starfstíma sínum skorið niður framlög til þróunarsamvinnu en á sama tíma aukið framlög til NATO og lofar enn hærri framlögum eins og fram kom í tengslum við heimsókn Anders Fogh Rasmussens, fráfarandi framkvæmdastjóra NATO, til Íslands og á leiðtogafundi NATO nú á dögunum.

Virðulegi forseti. Við friðarsinnar höfum ekkert að óttast varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að NATO. Reynslan sýnir að umræðan styrkir málstað okkar enda eru flestir þeirrar skoðunar að það sé rangt að drepa annað fólk. Við eigum að leita friðsamlegra lausna en ekki að hoppa alltaf á lausnir hermangaranna. Þær hafa ekki virkað hingað til. Um það vitnar til að mynda ástandið bæði í Afganistan og Írak. Við eigum að leggja okkar af mörkum til að byggja samfélög upp, ekki að brjóta þau niður. Það er löngu kominn tími til að klára það sem fólkið á Austurvelli krafðist árið 1949; að þjóðin sjálf fái að taka ákvörðun um það hvort við tilheyrum NATO og stríðsrekstri þess eða ekki. Þess vegna eigum við að samþykkja þessa þingsályktunartillögu um að fela ríkisstjórninni að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu.