144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Samfélag byggir á trausti og trúnaði og að orð manna séu haldin og loforð fyrir samfélagið standi. 5. mars árið 2011 tók Landsbankinn yfir Sparisjóðinn í Keflavík. Af því tilefni var okkur sveitarstjórnarmönnum sem þá voru á sviði boðið til fagnaðar þar sem haldnar voru ræður og gefin fyrirheit um framtíðina, að útibúið í Reykjanesbæ yrði eflt, þar kæmi til aukin starfsemi og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækisins mundi halda áfram í þeim takti sem sparisjóðurinn hafði sýnt af sér í mörg ár með miklum dugnaði. Það er skemmst frá því að segja að gleðibrosið eftir samkvæmið var ekki af manni farið þegar samfélagslega ábyrgðin fór að dvína og knattspyrnuliðunum, kirkjunum og samfélaginu var tilkynnt um lægri framlög. Nú á dögunum hefur 15 manns verið sagt upp störfum í Keflavík eða þeim boðið að koma til Reykjavíkur að starfa í bakvinnslunni á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki í takt við þau loforð sem gefin voru.

Ég vil aðeins minna á að það er mikilvægt að orð standi. Við þingmenn þekkjum það að ef við segjum ósatt í þinginu og segjum þjóðinni ósatt þá föllum við af þingi en í atvinnulífinu komast menn upp með að segja ósatt og fá bónusa fyrir. Það eru ekki vinnubrögð sem eru mér að skapi.