144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Gott heilbrigðiskerfi er okkur öllum mikilvægt sama hvar á landinu við búum, hvort sem um er að ræða hátæknisjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu eða heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Nauðsynlegt er að standa vörð um þessa starfsemi, sama hvort um er að ræða starfsemi Landspítalans eða heilbrigðisstofnanir víða um landið. Jafnframt er mikilvægt að þeir sem starfa í greininni vinni við góðar aðstæður til að geta sinnt störfum sínum eftir bestu getu. Aðstæður skipta miklu máli í þessu samhengi, sama hvaða stofnun er um að ræða.

Það hefur komið fram í fréttum undanfarna daga að yfir fimm þúsund manns bíða eftir aðgerðum á Landspítalanum. Biðlistar eru að lengjast og meðalbiðtími í aðgerð er um 250 dagar. Misjafnt er hversu lengi þarf að bíða, það fer allt eftir því hvaða aðgerð verið er að bíða eftir, en ljóst er að biðtíminn er of langur.

Í þessu samhengi er vert að velta því upp hvort möguleiki sé á, til að létta álaginu af Landspítalanum, að færa aðgerðir sem ekki krefjast bráðaúrlausna yfir á heilbrigðisstofnanir í nágrenni höfuðborgarinnar. Helstu rökin gegn þeirri framkvæmd sem ég hef fengið þegar ég hef spurt um þessa hluti eru að ekki sé að hægt að flytja læknateymi frá Landspítalanum yfir á heilbrigðisstofnanir í nágrenni höfuðborgarinnar, en þar sem ég þekki til starfa víða góð læknateymi, m.a. á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Þeim er vel treystandi til þessara verka.

Í fyrirspurn sem ég lagði fram til hæstv. heilbrigðisráðherra á síðasta þingi kom fram að Heilbrigðisstofnun Vesturlands væri mjög öflug í aðgerðum á kvennadeildum. Þar kom jafnframt fram að mögulegt sé við núverandi aðstæður að bæta lítillega við aðgerðum sem hægt er að gera bæði á dag- og göngudeildum. (Forseti hringir.) Það er alveg þess virði að kanna möguleika heilbrigðisstofnana víða á landsbyggðinni til að taka við fleiri verkefnum og styrkja þar með starfsemi þeirra og standa vörð um störf og þjónustu á landsbyggðinni.