144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú stendur yfir leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál þar sem hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lýsti yfir stuðningi við yfirlýsingu um að verðleggja ætti kolefni, eða „putting a price on carbon“. Í þeirri yfirlýsingu segir meðal annars að stjórnvöld heiti því að vinna að því að styrkja gjaldtöku af losun kolefnis og fylgja henni betur eftir. Þetta er mjög mikilvæg yfirlýsing í ljósi þess að hæstv. ríkisstjórn lækkaði hér kolefnisgjöld sl. vor og raunar stendur líka til að lækka losunargjald vegna gjaldskyldrar losunar á gróðurhúsalofttegundum, ef marka má frumvarp um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpsins. Ekki nóg með það heldur er líka kveðið á um í fjárlagafrumvarpinu og frumvarpi um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpsins að loftslagssjóður sem á að fjármagna rannsóknir í loftslagsmálum fái ekki lengur helming þessa losunargjalds en það hefur hingað til verið ein af fjármögnunarleiðum sjóðsins og því allsendis óvíst hvernig sjóðurinn á að fjármagna sig.

Ég túlka yfirlýsingu forsætisráðherra í New York sem svo að hún marki stefnubreytingu af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum og ég fagna því að hann hafi þarna lagt nýja línu með formlegum stuðningi við yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Gjaldtaka af losun kolefnis er ein mikilvæg leið til að sporna gegn loftslagsbreytingum sem eru stærsta og mikilvægasta mál okkar samtíðar, eins og aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur bent á.

Ég treysti því að við munum sjá breytingar á fjárlagafrumvarpinu og frumvarpi um ýmsar forsendur fjárlaga og styrkingu kolefnisgjaldtöku sem hæstv. forsætisráðherra hefur í raun skuldbundið okkur til að standa við núna. Ég reikna með því að við munum hugsanlega sjá fleiri breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem tengjast aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem bæði hæstv. forsætisráðherra og umhverfisráðherra hafa ítrekað lýst yfir að þeir standi við og sé í fullu gildi. Þar er ekki aðeins um að ræða kolefnisgjaldið heldur líka styrkingu almenningssamgangna.

Ég þykist vita að hæstv. forsætisráðherra hafi fylgt þessari aðgerðaáætlun þegar hann lýsti yfir stuðningi við yfirlýsinguna sem var samþykkt í New York, en við þurfum að sjá (Forseti hringir.) breytingar á fjárlagafrumvarpinu í takt við þetta. Ég vænti þess að þær verði auðsóttar í kjölfar þessarar mikilvægu yfirlýsingar.