144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Jón Árnason (F):

Hæstv. forseti. Þar sem sá sem hér stendur hafði ekki tök á að vera við umræðu um veglagningu gegnum Teigsskóg síðastliðinn mánudag langar mig að taka það mál upp á þessum vettvangi.

Enn og aftur erum við stödd nánast á byrjunarreit í málinu vegna þess að það er fast í kerfinu. Ráðleysið sem einkennt hefur þetta ferli er með ólíkindum. Málið lítur þannig út fyrir mér að það sé nánast eins og þeir sem standa í vegi fyrir framkvæmdinni hafi aldrei farið þarna um.

Vegagerðin og íbúarnir eru sammála að leiðin um Teigsskóg sé ein sú besta sem hægt sé að fara því þó svo við færum aðra leið á láglendi mundum við alltaf lenda í einhvers konar ógöngum, til dæmis með gerð jarðganga með tilheyrandi tilkostnaði. Það leiðir af sér að málið mundi tefjast enn frekar, en það þolir enga bið.

Þess vegna tel ég brýnt á þessum tímapunkti, herra forseti, að hæstv. innanríkisráðherra greiði úr flækjunni með aðgerðum framkvæmdarvaldsins eða Alþingi grípi í taumana og nýti sér þau úrræði sem það hefur til þess að höggva á þennan hnút.

Nái hæstv. innanríkisráðherra ekki að greiða úr þessari rembingsflækju með viðunandi hætti verð ég að hvetja þingheim til að sýna það pólitíska hugrekki að taka af skarið með afgerandi hætti svo ekki verði um villst að Alþingi Íslendinga ber fyrst og fremst hagsmuni þjóðarinnar fyrir brjósti.

Sú mikla uppbygging sem orðið hefur á sunnanverðum Vestfjörðum á undanförnum árum og vakið hefur mikla bjartsýni og framfarahug meðal íbúa og fyrirtækja á svæðinu má ekki líða fyrir kjarkleysi (Forseti hringir.)og úrræðaþurrð stjórnvalda.