144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um þingmál nr. 75, frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum, þ.e. leyfilegur munur milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæði til bráðabirgða VI í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem ætlað er að veita stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins svigrúm til að halda áfram vinnu við tillögur um eitt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn.

Kveðið er á um skyldu stjórnar lífeyrissjóðs til að láta gera tryggingafræðilega athugun á getu sjóðsins til að greiða lífeyri í 39. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Samkvæmt því ákvæði er stefnt að því að hrein eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda sé jafn há núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Leiði tryggingafræðileg athugun hins vegar í ljós meira en 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga er hlutaðeigandi lífeyrissjóði skylt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins. Hið sama á við ef munurinn hefur samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár. Í tilviki Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins þarf ákvörðun um hvort iðgjald launagreiðanda eigi að sæta hækkun eða lækkun að liggja fyrir eigi síðar en 1. október fyrir komandi almanaksár, sbr. 13. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Ákvæði til bráðabirgða VI í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða var upphaflega bætt við lögin 29. desember 2008, skömmu eftir bankahrunið, með lögum nr. 171/2008. Ákvæðið var á þeim tíma talið nauðsynlegt í ljósi aðstæðna, enda þurfti að koma í veg fyrir að lífeyrisréttindi sættu skerðingu og hækka þyrfti inngreiðslur ríkis og sveitarfélaga. Því var í ákvæðinu heimilað að hafa allt að 15% mun, í stað 10%, milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga vegna lífeyris miðað við tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2008. Sú heimild var síðan framlengd í tvígang fyrir árin 2009 og 2010. Með lögum nr. 156/2011, sem breyttu lögum nr. 129/1997, eru þau mörk sem virkja skyldu stjórna lífeyrissjóða til að hækka og/eða lækka iðgjald launagreiðanda því þannig að heimilað er að munur á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga vegna lífeyris verði allt að 15% áfram fyrir árið 2011, 13% fyrir árið 2012 og 11% fyrir árið 2013. Sérstaklega er kveðið á um að ákvæði um að hrein eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skuli vera jafn há núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda eigi ekki við um tryggingafræðilega athugun fyrir árin 2011, 2012 og 2013. Þá hafa 5% mörk miðað við samfelldan mun samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum verið færð í 10% fyrir árin 2008–2013, eða í sex ár frá og með árinu 2008 í stað fimm ára.

Fyrir nefndinni kom fram að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga — afsakið, hér hlýtur að eiga að standa A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins — hafi verið rekin með 12,5% mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga árið 2013 og A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafi verið rekin með 11,7% mun. Ljóst er að slíkur munur rúmast hvorki innan þeirra marka sem sett eru í 39. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða né í gildandi bráðabirgðaákvæði. Að óbreyttu mun skylda stjórna lífeyrissjóða til hækkunar iðgjalds launagreiðanda verða virk. Í tilviki Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins virkjast skyldan 1. október næstkomandi.

Fyrir nefndinni kom fram að ef skylda stjórna lífeyrissjóðanna til að hækka iðgjald launagreiðanda virkjast muni það leiða til þess að útgjöld ríkis og sveitarfélaga aukast. Það sem skiptir máli er að hækkun iðgjalds mun enn frekar en orðið er auka muninn á milli réttinda í almenna kerfinu og því opinbera og gera enn erfiðara að jafna réttindi milli kerfanna.

Enn er unnið að breytingum á lífeyriskerfi landsmanna með það að leiðarljósi að lífeyriskerfið standi undir sér fjárhagslega og dregið verði úr áhættu ríkissjóðs vegna bakábyrgðar á lífeyrisréttindum. Rétt þykir að veita frekari tímafrest til að leiða vinnuna til lykta en nefndin telur mikilvægt að henni verði lokið hið fyrsta.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Aðrir hv. þingmenn sem afgreiddu þetta á fundi 23. september 2014 voru: Frosti Sigurjónsson formaður, Vilhjálmur Bjarnason framsögumaður, Pétur H. Blöndal, Willum Þór Þórsson, Árni Páll Árnason, Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir Hv. þingmenn Pétur H. Blöndal og Guðmundur Steingrímsson undirrita þetta með fyrirvara. Með þessu nefndaráliti fylgir fylgiskjal um núvirtar eignir og mismuninn þar sem hann er sýndur myndrænt.

Ég hikstaði hér á lestri þar sem mér virðist að tvisvar sinnum sé talað um A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins en það kann að vera að í öðru tilvikinu eigi við Lífeyrissjóð starfsmanna sveitarfélaga, en ég tel rétt að þetta verði athugað milli 2. og 3. umr.

Ég hef lokið máli mínu.