144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[15:48]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S) (andsvar):

Spurning hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar er tvíþætt. Það að það þurfi að afgreiða málið með hraði, við skulum segja í þessari viku, stafar af því að skyldan til að hækka iðgjöld eða skerða réttindi virkjast 1. október á þessu ári og það mun gilda um báða sjóðina, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, A-deild, og Lífeyrissjóð starfsmanna sveitarfélaga. Það þarf að afgreiða þetta í þessari viku vegna þess að í næstu viku er, eins og hv. þingmönnum er kunnugt, kjördæmavika og þingfundir ekki haldnir. Það er einungis þetta ákvæði sem rætt var um sem krefst þess að þessi skylda verða virkjuð. En frumvarpið breytir ekki skuldbindingum, þær halda áfram. Það er hins vegar verið að fresta ákvörðunartöku og hún tengist jöfnun réttinda milli lífeyriskerfa í almenna og opinbera kerfinu. Það er ástæðan.