144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[15:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér nefndarálit hv. efnahags- og viðskiptanefndar um þetta mál, um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ég skrifa undir með fyrirvara. Fyrirvari minn felst í því að þarna er náttúrlega verið að fresta því að takast á við vandann. Ég fellst á það með þeim skilningi að það séu bara hreinlega ekki til peningar í ríkissjóði til að takast á við vandann. A-deild LSR átti alla tíð að standa undir sér með iðgjöldum sínum en hefur ekki það gert það alveg frá stofnun. Núna hefur safnast upp 63 milljarða skuld, ekki lítil tala, sem ætti ekki að vera þarna af því að sjóðurinn á að standa undir sér. Það hefði gert kröfu til þess eins og lögin eru sett upp að hækka iðgjaldið á ríkið og ríkisstofnanir sem borga í þennan sjóð af því réttindin eru föst hjá opinberu sjóðunum, sem er öndvert við það sem er í almennu sjóðunum þar sem réttindin eru skert þegar eignir duga ekki fyrir skuldbindingum. Því fresta menn hér að hækka iðgjaldið sem hefði kostað ríkissjóð 4 milljarða og ekki liti það vel út í þeirri stöðu sem ríkissjóður er nú.

Þess vegna samþykki ég þetta frumvarp með miklum semingi. Það er bara faglega séð ekki sérstaklega gott fyrir mig að þurfa að samþykkja svona því að ég er tryggingafræðingur og vil helst að menn standi við þær skuldbindingar sem þeir hafa gengist við.