144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[16:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við fengum upplýsingar hjá hv. þingmanni um að hann talaði út frá brjósti tveggja, framsögumannsins og sínu eigin, og það er allt í lagi. Ég tek því þannig að hv. þingmaður hafi verið að gantast sem er í fínu lagi þó að málið sé alvarlegt.

Ég er sammála flestu því sem kom fram hjá hv. þingmanni. Það að vilja ýta undir sparnað í landinu hefur ekkert að gera með þjónkun við fjármagnseigendur nema þá bara alla fjármagnseigendur því að í rauninni eru allir þeir sem greiða í lífeyrissjóði fjármagnseigendur þar sem lífeyrissjóðirnir eru eign sjóðfélaga. En að hvetja fólk til sparnaðar og skapa umhverfi fyrir það er æskilegt og nauðsynlegt og grundvöllur að góðum lífskjörum í landinu þannig að ég styð hv. þingmann í því.

Hins vegar vil ég nota tækifærið, af því að við erum að ræða þessi mál og þetta er prýðileg umræða, og hvetja hv. þingmann til að beita sér fyrir því innan hv. efnahags- og viðskiptanefndar að kalla eftir upplýsingum um stöðu mála. Það verður að ýta á eftir því að eitthvað gerist, það gerist augljóslega ekki af sjálfu sér. Við getum ekki gert ráð fyrir því að fá niðurstöðu í þessi mál að öllu óbreyttu. Það er mikið um þetta rætt manna á milli og stundum í fjölmiðlum. Það er vitað að vinna er í gangi. Það er vitað eða skilaboðin eru alla vega þannig að ef við tökum ekki á þessu hafi það slæm áhrif. Við verðum að sjá fyrir endann á þessu.

Ég hvet þess vegna hv. þingmann til að kalla eftir upplýsingum um það hver staðan er því að þetta er ekki lítið mál, þetta er risamál. Við vitum það, ég og hv. þingmaður, að skrefið sem við erum að stíga núna er ekki það skref sem við mundum vilja stíga í fullkomnum heimi.