144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[16:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeir eru sérkennilegir þessir samskiptahættir sem sjálfstæðismenn tileinka sér hér í þinginu, virðast ekki tala hver við annan og koma af fjöllum þegar verið er að ræða mál flokksformannsins.

Eins og ég var að reyna að útskýra hér áðan þá er ástæða þess að ég tek það óstinnt upp að menn tali í umræðunni eins og engar upplýsingar liggi fyrir að það voru gefnar upplýsingar í nefndinni. Það voru gefin þar fyrirheit um tilteknar dagsetningar og það er þess vegna sem málið er samþykkt. Það er forsendan fyrir stuðningi mínum við málið. Þess vegna kann ég því afskaplega illa þegar menn tala hér eins og verið sé að gefa út einhvern opinn tékka. Af minni hálfu er ekki verið að gera það.

Það er þess vegna sem ég geng ríkt eftir því að í sjálfu sér sé búið að veita þessar skýringar í nefndinni, þær liggi fyrir. Ég vil treysta þeim embættismönnum fjármálaráðuneytisins sem þar voru að gera grein fyrir stöðu mála, að þeir tali í umboði síns ráðherra eins og venjan er. Þó svo að hv. þingmaður vilji kannski vantreysta formanni sínum og fjármálaráðherra hef ég ekki lagt það í vana minn að vantreysta ráðherrum þegar þeir senda embættismenn með skilaboð fyrir þingnefndir. Þetta var sagt mjög skýrt í þingnefndinni. Það er mjög mikilvægt að það komi fram í umræðunni. Ég var að tryggja að það kæmi hér fram. Á þeim forsendum skrifaði ég undir nefndarálitið.

Það er mjög mikilvægt að það liggi fyrir að þetta eru hinar efnislegu forsendur afgreiðslu málsins af minni hálfu.