144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[16:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum væntanlega ekki verið að hlusta á sömu umræðu, ég og hv. þm. Árni Páll Árnason. Ef þetta væri bara mál míns formanns þá væri það einfalt. Ef hann kæmi einn að þessu máli og gæti stýrt þessu öllu sjálfur væri enginn vafi á því að góð niðurstaða kæmi í það eins og þau mál sem hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins lætur sig varða og heldur utan um.

Það hefur enginn haldið því fram að hér sé neinn opinn tékki, ég veit ekki af hverju hv. þingmaður er að segja það. Það er sérstakt ef mönnum finnist það slæmt að menn skuli ræða málið fyrir opnum tjöldum í ræðustól Alþingis, fyrir framan þing og þjóð, ég veit ekki hvað er óeðlilegt við það. Ég tel afskaplega mikilvægt að við ræðum þessi mál og ég tel afskaplega mikilvægt að það komi skýrt fram í ræðum hv. þingmanna að menn vilji sjá fyrir endann á þessu.

Ég vona svo sannarlega að þessar tímasetningar standist og ég efast ekkert um það eina stutta stund að þeir sem hafa veitt upplýsingar fyrir nefndinni hafi gert það rétt og samkvæmt bestu samvisku. En við þekkjum það, af því að við vitum hvernig þetta mál er vaxið. Eins og ég nefndi erum við ekkert að taka þetta í fyrsta skipti. Síðasta ríkisstjórn kom, held ég, með þetta á hverju einasta ári og ég held að aldrei hafi verið sagt annað en að menn vildu ljúka þessu máli. Ég held að enginn hafi vænt þáverandi ríkisstjórn um að hafa verið að blekkja þingið eða veita villandi upplýsingar. Það er einfaldlega svo að málið kláraðist samt sem áður ekki.

Við getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar til að klára málið. Eitt af því er að ræða um það hér á þessum vettvangi og láta í ljós þá skoðun okkar að við fáum niðurstöðu í það. Þó svo að við getum karpað um ýmislegt, og kannski frekar um formið en efnið í þessari umræðu, ég og hv. þm. Árni Páll Árnason, þá veit ég að við erum báðir sammála um það.