144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

6. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögbann og dómsmál, en hér er um að ræða innleiðingu EES-gerðar.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um lögbann og dómsmál til þess að vernda heildarhagsmuni neytenda. Frumvarpið felur í sér að til staðar verði réttarúrræði til þess að stöðva eða koma á annan hátt í veg fyrir háttsemi sem stríðir gegn ákveðnum tilskipunum sem taldar eru upp í viðauka við tilskipun 2009/22/EB.

Nefndin bendir á í nefndaráliti sínu að þetta felur í sér einföldun á þann hátt að í hvert sinn sem viðauka við tilskipunina er breytt þarf ekki að eiga sér stað lagabreyting, þannig að þetta er til einföldunar. Breytingin sem frumvarpið felur í sér, að falla frá því að telja upp þær tilskipanir sem falla undir þennan viðauka, er sambærileg við það sem tíðkast í norskri löggjöf. Þar er viðeigandi ráðuneyti einfaldlega falið að gefa út reglugerð með upptalningu gerðanna.

Þá er í 3. gr. frumvarpsins lagt til að stjórnvöld og félagasamtök, sem ráðherra útnefnir, geti leitað lögbanns eða höfðað dómsmál fyrir stjórnvöldum eða dómstólum hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu til að verja heildarhagsmuni íslenskra neytenda, en við bendum á að það er ávallt ákvörðun stjórnvaldsins, þ.e. ríkisins eða hins opinbera, að höfða mál í þessu sambandi. Viðkomandi félagasamtök á sviði neytendamála munu hins vegar fara fyrir málinu, en kostnaðurinn greiðist úr ríkissjóði.

Við fengum upplýsingar um það í nefndinni að stefnt er að endurskoðun málaflokksins í heild og eitt af þeim atriðum sem á að skoða í því sambandi er hvort fjölga eigi þeim stjórnvöldum eða samtökum sem eru á þessum lista. Nefndin tekur fram að hún er mjög fylgjandi þessari heildarendurskoðun.

Undir þetta nefndarálit skrifar sú sem hér stendur, hv. þingmenn Páll Valur Björnsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Halldóra Mogensen, með fyrirvara, sem ég geri ráð fyrir að þingmenn Pírata muni gera grein fyrir hér.

Nefndin leggur til að málið verði samþykkt óbreytt.