144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

mótun viðskiptastefnu Íslands.

23. mál
[17:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var ekki mikið um andsvör í þessu en engu að síður tel ég mjög brýnt að við tökum á honum stóra okkar og minnkum þennan mismun. Það er dapurlegt, og hlýtur að vera erfitt og leiðinlegt fyrir verslunareiganda í Reykjavík og um allt land, að standa í þessari glötuðu samkeppni við fríverslunina í Keflavík og víðar, og eins og komið hefur fram í London og annars staðar. Verslunin stendur í vonlausri baráttu við verslanir út um heim sem selja án virðisaukaskatts, án vörugjalda, án tolla og án nokkurs skapaðs hlutar.

Ég tek undir með hv. þingmanni. Ég skil ekki þessa ályktun VR, hún hlýtur að byggjast á einhverjum misskilningi. Þeir ættu endilega að endurskoða hana því að ef eitthvað styrkir íslenska verslun þá er það að minnka þann aðstöðumun, sem er óþolandi, að verða að selja vöru með vörugjöldum í dag, tollum og alls konar gjöldum og virðisaukaskatti í samkeppni við verslun úti í heimi sem greiðir ekki neitt.