144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

mótun viðskiptastefnu Íslands.

23. mál
[17:32]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni. Það var ánægjulegt að heyra ræðu hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar. Hann fór mjög vel yfir þessi mál og kom með nýja vinkla á því sem hvorki ég né hv. þm. Pétur H. Blöndal fórum yfir. En þetta er nákvæmlega málið, að við mótum okkar stefnu. Hvað viljum við gera? Hvernig er viðskiptastefna Íslands? Af hverju erum við ekki með neina? Hv. þingmaður fór mjög vel yfir landbúnaðarmál og kom fram með mjög mikið af upplýsingum. Ef við viljum lækka matvælaverð leikur enginn vafi á að það er leiðin til að opna markaðinn ef það er eina markmiðið. Ég get ekki farið yfir það sérstaklega núna í örstuttu máli en ég tel hins vegar að gera mætti meira þegar kemur að landbúnaðarmálunum og mér finnst við ekki kunna að meta það góða sem við höfum, hvorki þar né í annarri matvælaframleiðslu eins og t.d. varðandi fiskinn okkar.

Bara svo ég taki dæmi þá var ég í Barcelona og fór á markað á Römblunni sem var örugglega ekki ódýrasti markaðurinn í Barcelona. Hver skyldu hafa verið dýrustu matvælin þar? Það voru ekki nautasteikurnar eða paté eða eitthvað, það er allt til þarna. Það var saltfiskur, örugglega íslenskur saltfiskur, en hann var ekki merktur sem íslenskur. Ég veit um Spánverja sem koma hingað en þeir geta ekki keypt saltfisk. Ég hef sjálfur aðeins verið að leika mér að því að útvatna saltfisk en það er bara mjög erfitt að fá hann, svona alvörusaltfisk sem seldur er hvað hæstu verði. Hann er ekki dýr hér, alls ekki, en það er erfitt að fá hann. Maður fær að vísu mjög góða rétti í borðunum o.s.frv. en ef maður vill gera þetta alveg sjálfur er það mjög erfitt. Við kunnum ekki alveg að meta svona hluti. Við eigum ekki íslenskar uppskriftir, ekki eftir svæðum.

Það sama er varðandi landbúnaðarframleiðsluna, sem er náttúrlega alveg stórkostleg. Það er stórkostlegt að hafa kjöt sem ekki er með aukaefnum. Ef þú ferð til Bandaríkjanna og ferð í kjötborð þar þá er hormónakjötið mjög ódýrt. Ef maður kaupir kjöt sem er „grass fed“, sem er bara eins og nautgripaframleiðsla hér, er það á svipuðu verði og ef maður kaupir það í búð hérna. Það er bara allt önnur vara því að það þarf að taka það sérstaklega fram að viðkomandi dýr borði gras, sé grasbítur. Þegar maður ferðast sér maður alls staðar svæðisbundna rétti og annað slíkt og heimamenn eru stoltir af þeim. Við eigum stórkostlegt hráefni hérna en mér finnst þetta vanta hjá okkur. Þegar ég fór á Siglufjörð um daginn, sem ég er búinn að gera annað slagið alla ævi, var sami matseðillinn í vegasjoppunum og var þegar ég fór í fyrsta skipti, ég man ekki hvað ég var gamall fyrst þegar ég fór norður.

Við nýtum ekki það góða hráefni sem við höfum og það eru ekki bara erlendir ferðamenn sem eru að leita að einhverju íslensku heldur líka við hin. Við mættum vera miklu stoltari af því sem við erum að gera á sviði matvælaframleiðslu og gera meira úr því. Á sama hátt eigum við ekki að vera hrædd við samkeppni, samkeppni er nauðsynleg. Þessi kjánalega kvótaúthlutun þegar kemur að t.d. að flytja inn mjólkurvörurnar er ekki góð fyrir neinn, ég tala nú ekki um þegar allt saman er meira og minna á einni hendi, mjólkurframleiðslan, afurðastöðin — bændurnir eru fjölmargir en það er í rauninni bara ein afurðastöð í ostunum og ein í mjólkinni. Þá verður viðkomandi framleiðslufyrirtæki að fá aðhald. Það er bara þannig, það er gott fyrir alla.

Þetta er nokkuð sem við ræðum mjög lítið en við þurfum að ræða. Ég er búinn að flytja þetta mál oft. Ætli þetta sé ekki mesta umræðan! Tveir hv. þingmenn koma og taka þátt í umræðunni og er það vel. Vonandi tökum við umræðu um þetta og mótum hér stefnu. Ég held því ekki fram að við verðum öll sammála en þó mótum við alla vega stefnu og nýtum tækifærið, stóra einstaka tækifærið. Við Íslendingar erum ekki tollabandalag, við erum ekki í ESB, þá getum ekki gert neitt. Þá er bara að fara til Brussel og gera eitthvað.

Við getum samið við alla sem við viljum um fríverslun. Það er gott fyrir útflutninginn og það er gott fyrir neytendur hér í landi ef við erum með fríverslunarsamninga. Það gerir það að verkum að Ísland verður land tækifæranna og það er gott fyrir alla að hafa fjölbreytt úrval hér, góða samkeppni. Þess vegna er þetta mál lagt hér fram og ég fagna stuðningi hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar. Hann verður miklu betri en enginn í að hjálpa til við að koma þessu máli í gegn og ég vonast til þess að það verði góð samstaða í þinginu. Og þó að það verði ekki góð samstaða vona ég að það stígi þá einhver fram ef hann er annarrar skoðunar og lýsi skoðun sinni. Ef einhverjir vilja bara hafa landið lokað er alla vega gott að taka þá umræðu.

Hvað sem því líður er ég bjartsýnn maður að eðlisfari og er sannfærður um að við fáum þetta mál í gegn og við sjáum hér alvöruviðskiptastefnu á næstunni.

(Forseti (ÞorS): Forseti vekur athygli hv. þingmanns á að hætt er að nota hugtakið kjöt af grasbítum.)